Skassið ótamið

Nýlega keypti ég (gegnum samskiptaforrit) fyrsta bindið af Baldintátu sem var aldrei til á bernskuheimili mínu, aðeins hin tvö. Baldintáta er afar skemmtilega skáldleg íslenskun þýðandans Hallbergs Hallmundarsonar á upphaflegu ensku heiti bókarinnar The Naughtiest Girl in the School (1940) en höfundurinn er sjálf Enid Blyton (1897–1968) sem ég skrifaði um fyrir margtlöngu. Bækurnar fjórar komu upphaflega út 1940–1952 og þrjár þær fyrstu á íslensku 1959–1961. Þetta er meðal vönduðustu og áhugaverðustu sagnaflokka Enidar og bera róttækni hennar og nútímahugsun gott vitni. Hennar ímynd í nútímanum er ekki endilega að vera víðsýn en það er eins með hana og marga aðra höfunda, þröngsýnu hugmyndirnar eru margar almennar hugmyndir síns tíma en það einstaka við hana eru nýjungarnar.

Baldintáta fjallar um dekraða einkabarnið Elísabetu Halldórsdóttur (Elizabeth Allen á frummálinu) sem er send í Laufstaðaskóla og lærir þar að umgangast aðra krakka. Þess má geta að mamma mín heitin hafði ævinlega þá menntastefnu að við værum ekki í skóla til að læra staðreyndir (mikill lestur á alfræðibókum gerði sama gagn) heldur til að læra að vera hluti af íslensku þjóðinni með öllum sínum kostum og göllum og þetta var ansi skynsamleg hugmyndafræði. Fyrsta bókin snýst öll um hvernig Elísabet lærir að hegða sér og kannski er hámark hennar þegar hún ræðst á Harald sem hefur gert henni grikk en fer svo og biður hann afsökunar og þau sættast með því að hann gefur henni kanínur. Í minni gömlu grein benti ég á að kanínur séu þekktar fyrir mikla frjósemi og að áhugavert sé að samskipti Elísabetar við stráka tengist kanínum. Elísabet á raunar síðar í ýmsum vinasamböndum við drengi sem stundum einkennast af mikilli tilfinningalegri ákefð en aldrei er ýjað að neinni rómantík. Enid Blyton leyfði táknunum að tala.

Haraldur er eitt helsta vandræðabarn fyrstu bókarinnar en í annarri bók er það hinn hávaxni og ólundarlegi Róbert Jónsson sem þjáist af sadisma en allt slíkt er hægt að lækna í Laufstaðaskóla þar sem hugmyndafræðin er talsvert í anda bæði sovésks og kínversks kommúnisma 5. áratugarins (sem ég hef raunar betri tengingu við en fórnarlambavinstrimennsku 21. aldar). Illt má reka út með góðu. Í stað þess að Róbert sé refsað fær hann verkefni sem krefst þess að hann nái sambandi við ástúðlegri hluta sálarinnar, í hans tilviki að sinna hestum. Í kjölfarið umvendist Róbert og verður góður drengur og vinur Elísabetar sem hann hafði áður hatast við. Þetta er eins konar heilaþvottur sem ekki er í tísku lengur, hið gamla sjálf Róberts, sadistinn, þurrkast út en í staðinn kemur nýr Róbert sem elskar hesta, handbolta og Elísabetu. Hann er síðan áfram einn af hennar bestu vinum.

Í þriðju bók kynnist Elísabet Júlíusi Hjálmarssyni sem hún í enn ákafari sambandi við en kærir á skólafundum líkt og Róbert áður (maóísk sjálfsskoðun er helsta einkenni Laufstaðaskóla). Júlíus er eins konar séní og fremur þreytandi persóna eins og allar slíkar sem höfundur hefur botnlaust dálæti á. Áhugaverðari er Marteinn Finnsson sem er afhjúpaður sem þjófur í bókinni en í ljós kemur að hann stelur einkum til að gefa og kaupa sér vináttu. Marteinn þjáist sem sagt af lágu sjálfsmati en einnig það getur Laufstaðaskóli læknað. Athyglisvert er að í skólanum ríkir engin meðvirkni með slíkum göllum; þar ríkir ekki það boðorð nútímans að sérkenni fólks séu náðargáfa og verkefni einstaklingsins að fá allan heiminn til að snúast í kringum þau. Þvert á móti eru sérkennin upprætt og nýtt sjálf verður til á grunni hins gamla.

Þess má geta að vegna þess að þessar bækur höfðu mikil áhrif á mig í bernsku notaði ég flestar þýðingar Hallbergs á enskum nöfnum persónunanna í bókaflokknum Sögu um glæp (2018–2023) þó að enginn gagnrýnandi hafi beinlínis tekið eftir því enda hef ég líklega enn ekki eignast í þeirra hópi þann góða lesanda sem allir höfundar þrá.

Next
Next

Fjölhæf listakona