Mikil menningaráhrif lítilmótlegs manns
Ed Gein (1906–1984) var á engan hátt merkilegur maður og ekki einu sinni sérstaklega umsvifamikill raðmorðingi. Hann drap tvær konur örugglega, kannski tvær aðrar og jafnvel tvo karlmenn (sennilega þó ekki) sem slagar ekki einu sinni hálfa leið upp í þá félaga Dahmer, Corll, Gacy og Bundy. Á hinn bóginn varð Gein alræmdur sem grafarræningi sem stal beinum og líkamshlutum og notaði í vafasömum tilgangi og það er þess vegna sem áhrif hans á poppmenningu Bandaríkjanna og heimsins hafa orðið umtalsverð og langvarandi. Hið sama hafði hin alræmda Buchenwaldtík (þetta stuðlar á ensku en ég kann ekki við að flytja hana til Treblinka eingöngu til að halda stuðlunum) Ilse Koch, konan með húðlampann, gert í seinna stríðinu og samkvæmt þáttunum Monster: The Ed Gein Story úr smiðju Ian Brennan (Ryan Murphy var maðurinn á bak við fyrri þættina tvo en er ekki með að þessu sinni) sótti sveitalubbinn Gein beinlínis innblástur til Ilse Koch (hún „talar við hann“ öðru hvoru í þættinum) og skrifaði henni bréf að lokum en ekki veit ég hvort það á við rök að styðjast (dreg það mjög í efa).
Þátturinn fjallar ekki aðeins um þennan lítilsiglda Wisconsinbúa heldur ekki síður poppmenninguna seinustu 60 árin eða svo og þess vegna eru Alfred Hitchcock, Anthony Perkins, Tobe Hooper og jafnvel Ted Levine (Buffalo Bill) persónur í þessum þáttum. Sjálfur Ed Gein er sýndur sem krípí vesalingur en auðvitað ekki minna hættulegur fyrir það; hann er raunar látinn tala með svipaðri rödd og einn góður vinur minn sem mér finnst frekar „unheimlich“. Hinn enski Charlie Hunnam leikur Gein; hann er auðvitað fantagóður leikari og var það allt frá táningsaldri og það er aldrei leiðinlegt að horfa á hann (Hunnam er orðinn 45 ára en strax í fyrsta þætti sést að hann er enn vel vaxinn). Laurie Metcalf sem allir þekkja þó að ekki væri nema úr Scream 2 leikur klikkaða og grimma móður Eds Gein sem er þar með líka fyrirmyndin að frú Bates úr Psycho. Hún er mest áberandi í fyrsta þættinum og er sárt saknað eftir það.
Sagan fer síðan að dreifa sér álíka víða og Ingjaldsfíflið forðum. Nærsamfélag Geins í Wisconsin reynir að græða á óeðli hans þegar upp kemst um strákinn en þar með er sögu hans sem menningarhetju ekki lokið. Alfred Hitchcock (leikinn af sjálfum Tom Hollander) er að gera myndina Psycho eftir sögu Robert Bloch og þar leikur Anthony Perkins (Joey Poliari úr Love, Simon) aðalhlutverkið en á í mikilli innri baráttu sjálfur við eigin kynhvöt; Tab Hunter sést líka enda var sá frægi foli að deita Perkins um tíma. Kenning þáttaraðarinnar er að Hitchock hafi rofið einhvern siðsemismúr með Psycho sem ekki varð síðan reistur á ný; kvikmyndin hafi skapað nýjan smekk sem varð svo ekki stöðvaður og kaffærði allt. Það er þó varla satt því að blöð með svona efni voru út um allt löngu fyrr og vissulega léði Hitchcock því ákveðinn virðuleikablæ en áhrifin voru þó ekki meiri en svo að The Silence of the Lambs er ekki gerð fyrr en löngu síðar. Þar er Buffalo Bill aðalpersóna, náskyldur Norman Bates þó að ekki sé hann líkur honum en báðir sækja þó innblástur til Eds Gein. Þriðja kvikmyndin sem kemur við sögu í þáttunum er Keðjusagarmorðin í Texas enda hið íslenskættaða Leðurfés í henni sannarlega líka runninn frá vesalingnum Gein.
Gein drap sem sagt bara tvær manneskjur svo að öruggt sé, Mary Horgan (það gerist snemma í þáttunum) og Beatrice Worden sem er túlkuð af Lesley Manville sem er orðin sú enska eldri leikkona sem maður missir helst ekki af, jafnoki Maggie Smith og slíkra hetja. Hún sést aðallega í fjórða þætti og leikur svo ákaft að aðeins leikkona af þessari stærð kæmist upp með það. Síðan auðvitað geymdi greyið hann Gein hausana og hjörtun úr þessum eldri konum heima hjá sér auk fleiri líkamsparta og reyndist meðal annars eiga einar níu píkur í skókassa einum. Allt tengdist þetta risavöxnum mömmukomplex hans eins og sálfræðingurinn útskýrði svo rækilega í Psycho á sínum tíma. Treystir þáttaröðin þessu efni nægilega vel? Eiginlega ekki því að Brennan nægir ekki að draga Anthony Perkins og Alfred Hitchcock inn í söguna heldur er þar líka hin fræga Christine Jorgensen (fyrsta transan) og að lokum plottið úr Mindhunter nokkurn veginn í heild sinni. Kannski er þetta allt gert til að kanna betur hið almenna gildi sögunnar um Gein en hugsanlega hefði sjálft efnið dugað betur í aðeins færri þætti.
Ég er þó ekki með öllu ósáttur við þá hugmynd að láta þáttinn snúast um poppmenninguna og dálæti blóðþyrsts nútímans á morðum, náriðlum og perrum af ýmsu tagi. Þó er kannski langt gengið að tengja Gein rækilega við Tony Perkins, þann góða dreng sem gerði ekki flugu mein. Annar vandi þáttanna er að ádeilan á bandaríska blóðþorstann snýst eiginlega um að velta sér eina ferðina enn upp úr öllum þessum vibba (sérstaklega í lokin) og segja má að þar sé hinn klassíski „diskó friskó“ vandi á ferð: það er flókið að hæðast að hlutnum með því að beinlínis vera hann. Og fyrir utan að hafa verið innblásturinn að merkilegum listaverkum Hitchcock, Tobe Hooper og Jonathan Demme var Ed Gein ósköp ómerkileg og ömurleg mannvera sem ég á erfitt með að fá áhuga á, jafnvel þó að hinn glæsilegi Charlie Hunnam túlki hann.