Frostrósir og fatafækkun
Þó að ég þekkti enga aðra afmælisdaga listamanna veit ég auðvitað að Freymóður Jóhannsson málari og textahöfundur fæddist tólfta september 1895 og lést 1973. Höfundarnafnið Tólfti september mun þannig komið til að það stefndi í litla þátttöku í danslagakeppni góðtemplara og þar sem Freymóður var einn ábyrgðarmanna ákvað hann að senda inn lög undir þessu dulnefni sem var afmælisdagur hans. Ég veit ekki hvort nokkur ung manneskja þekkir lög Freymóðar; þau eru afar mikill hluti af Rás 1 bernsku minnar. Ellý og Vilhjálmur voru enn að syngja lög hans á plötu um 1970 og kepptu við Ðe lónlí blúbojs um spilun í útvarpinu.
En Freymóður er ekki bara maðurinn á bak við „Frostrósir“ og „Litla tónlistarmanninn“, hann var líka leiktjaldamálari og frumkvöðull í því á Íslandi. Upphaflega var hann málari og ferillinn í dægurlagatónlist undir dulnefni kom ekki til fyrr en löngu síðar. Opinberlega var hann svo enn einn maðurinn, góðtemplarinn sem barðist harkalega gegn öllu klámi og siðleysi, einkum þegar sænska kvikmyndin Ur kärlekens språk var sýnd hér haustið 1970 en þetta var eins konar kynfræðslumynd leikstjórans Torgny Wickman (1911-1997) þar sem kynlífsfræðingarnir Inge og Sten Hegeler sem voru með kynlífspóst í Ekstra Bladet birtust meðal annars. Þessa mynd kærði Freymóður til lögreglunnar. Wickman og Hegelerhjónin voru sannarlega ekki hætt í kynlífsfræðslunni og Freymóður hlaut ekki erindi sem erfiði.
Hannes Jón Hannesson úr tríóinu Fiðrildum gaf skömmu síðar út lagið „Fækkaðu fötum“ (1971) sem var þegar í stað bannað í útvarpinu. Textar Hannesar um þær mundir munu flestir hafa verið eftir Hrafn Gunnlaugsson, Þórarin Eldjárn og Davíð Oddsson og í þessum kemur fyrir „En pabbi, hann er barngóður / og afi, hann er Freymóður / en ég er orðinn lafmóður“ sem ef til vill beindist að siðapostulanum. Lagið er eftir Peter Sarstedt sem hafði átt einn helsta hittara ársins 1969 og íslenski textinn er að mestu leyti þýðing en ekki þó setningin um siðapostulann Freymóð.