Mannætur og bókaætur
Að sögn mun sjálfur Svarthöfði aðeins sjást í 12 mínútur í fyrstu Stjörnustríðsmyndinni (sem síðar hét Ný von) og stal þó senunni og öllu með sem á henni var; eins er það með óvættina Hannibal Lecter í Þögn lambanna; hann er aðeins 16 mínútur í mynd og fyrir þann stundarfjórðung fékk Anthony Hopkins verðskulduð óskarsverðlaun. Það lýsir snilld höfunda að nota persónur svona vel. Óhjákvæmilegt var þó að um eitthvað framhald yrði að ræða; raunar hafði Brian Cox þegar leikið Hannibal í kvikmyndinni Manhunter á móti sjálfum William Petersen (síðar Gil Grissom í CSI) og það er ágæt mynd sem ég sá aftur um daginn en hún var síðan endurgerð undir heitinu Red Dragon árið 2002 með Hopkins leikandi Hannibal á ný og Edward Norton í hlutverki Will Graham FBI-löggu en í aukahlutverkum eru Ralph Fiennes, Emily Watson, Harvey Keitel, Philip Seymour Hoffman og Mary-Louise Parker, í stuttu máli landsliðið í leik. Og burtséð frá afburðaleik Hopkins og Foster í óskarsverðlaunamyndinni finnst mér Rauði drekinn í raun ekkert síðri. Báðar myndirnar eru sígildar og hægt að horfa á þær ítrekað en margt annað efni um Hannibal nær ekki slíkri hæð þrátt fyrir góða leikara (sjónvarpsþættina frá 2013–2015 hef ég ekki séð, en þeir státa þó af sjálfum Mads Mikkelsen).
Edward Norton er auðvitað frábær leikari eins og allir hafa vitað síðan hann birtist okkur fyrst í Primal Fear (1996) og það er kannski hann sem á myndina frekar en Hopkins; líklega hefði engum öðrum tekist að holdgera persónu sem þarf að hafa svipaða jákvæða en þó brotna orku og Clarice í The Silence of the Lambs. Eins er sambandið milli morðingjans Dolarhyde og Rebu átakanlegt þökk sé úrvalsleikurunum Fiennes og Watson og sjálf Ellen Burstyn tekur að sér að tala fyrir hina illu ömmu Dolarhydes sem hefur gert hann að þeirri óvætti sem raunin er og sem fremur hrottalega glæpi (þeir eru sem betur fer ekki sýndir). Annars dansa báðar myndirnar á línu óhugnaðarins hvað mig varðar. Svo skaðar aldrei að hafa Philip Seymour Hoffman í smáhlutverki enda augljóslega trúarjátning þess dásamlega leikara að engin smá hlutverk séu til. Hoffman ofleikur aldrei beinlínis en hann stórleikur, svipað og Bette Davis og ýmsir færir leikarar fyrri tíma.
Í báðum kvikmyndunum er rannsóknin ekki tekin alveg frá okkur þó að hún sé kannski ívið meira áberandi í Rauða drekanum en Þögn lambanna þar sem Clarice þarf fyrst og fremst að ráða í orð Hannibals. Will Graham (Norton) er hins vegar að glíma við vísbendingar. Lykillinn að lausn málsins er þegar hann áttar sig á að morðinginn hljóti að hafa séð fjölskyldumyndböndin sem hann hefur sjálfur horft á til að kynnast fórnarlömbunum. En þetta eru líka „prófílerar“ líkt og söguhetjur Mindhunter og eitt sterkasta atriðið er þegar Graham þylur prófílinn fyrir kollega Dolarhydes og þau skilja strax að þetta er hann (kennsl í hugtakakerfi Aristótelesar). Öfugt við Þögn lambanna sem notar tiltölulega fáar tuggur (kannski helst þegar bjölluhringing eru í öðru húsi en sýnist) þykist Rauði drekinn ætla að gabba okkur í að halda að morðinginn sé látinn þó að við höfum ekki séð hann drepast. Það falla nú fáir fyrir slíku í nútímanum.
Þó að ég sé aldrei hlynntur atriðum í spennubókum þar sem morðingjar hyggjast skeyta skapi sínu á laganna vörðum og fjölskyldum þeirra (það er fátt um það í raunveruleikanum sem betur fer) fer Rauði drekinn vel með slíkt atriði, ekki síst með því að láta Dolarhyde ekki vera ofurmannlegan og ódauðlegan eins og allt of algengt er í myndum (Michael Myers og Tortímandinn eru undantekningar, þ.e. dæmi um að þetta getur stöku sinnum verið í samræmi við meginboðskap verksins) heldur venjulegan feigan mann. Aðferðin sem Graham notar til að koma morðingjanum úr jafnvægi og ná undirtökunum er líka sérstök og sláandi og um leið snjöll og í ágætu samræmi við menntun og reynslu hans. En það þarf leikara eins og Edward Norton til að gera svona vel.
Þó að myndin (og bókin sem hún byggist á) sé kennd við dreka er sofandi tígrisdýr líklega áhrifameista rándýrið í henni og meðferð morðingjans á fornbókum fer eflaust verr með suma (a.m.k. mig) en morðin hans; það er svo margt fólk til en fá sígild menningarverðmæti. Fiennes er jafn sannfærandi í þessu hlutverki og hann er hlægilegur sem Voldemort. Ted Levine var afar krípí í Þögn lambanna en við komumst lengra í að skilja hinn ógæfusama Dolarhyde sem þarf líka að lóga eins og hverju öðru villidýri en ekki samúðarlaust.