Illmálgir klerkar og blíðmálgir
Vinkona mín ein komin á efri ár nældi sér í bók á gjafaborði og er til marks um ágæti slíkra borða sem ég hef áður rætt hér á síðu. Hún lánaði mér síðan þessa bók sem þannig eignaðist tvo lesendur enn en bókin er Minningabók séra Halldórs Jónssonar á Reynivöllum í Kjós (1873–1953) sem var tónskáld og er m.a. getið á hinum frábæra alfræðivef Glatkistunni fyrir það. Þessar endurminningar voru í tveimur bindum bundin saman í eina bók og þau tvö bindi eru kölluð (e.t.v. aðeins hjá þessum bókbindara) Ljósmyndir II því að áður hafði Átthagafélag Kjósverja gefið út bók með ljósmyndum eftir séra Halldór. Minningarnar voru gefnar út að presti látnum og væntanlega eins og hann gekk frá þeim og þar er sagt frá ýmsu áhugaverðu, t.d. dvöl hans á Kleppi eftir andlát eiginkonunnar en einnig eru í bókinni hversdagslegri hlutir, m.a. frásagnir af öllum stærri veislum sem séra Halldór sótti á lífsleiðinni. Hann segir einnig frá langömmu minni og frænka mín sem var prestsfrú í Hraungerði er einnig nefnd sem vitaskuld er óvænt ánægja.
Séra Halldór er eins ólíkur séra Árna Þórarinssyni og hugsast getur. Það er ekkert vont fólk í lífi hans. Öllum sem hann þekkir lýsir hann nákvæmlega og eru þær lýsingar allar jákvæðar þó að iðulega taki prestur fram eitthvað eitt sem viðkomandi var ekki góður í. Eiginkonunni segir hann fallega frá en hún andaðist einum 7-8 árum áður en þessar minningar eru ritaðar eftir langa vanheilsu. Þó að þetta sé tiltölulega nýliðinn atburður segir hann frá honum á bls. 200, þ.e. 236 bls. fyrir lok bókarinnar og kemur þá að einni ástæðu þess að vinkona mín vildi að ég læsi bókina. Séra Halldór segir um dreng sem hann kenndi: „Jeg felldi brátt ástarhuga til þessa unglings og hafði raunar elskað hann frá því að hann var smábarn í foreldrahúsum“ og skömmu síðar segir hann frá öðrum nemanda sínum með orðunum: „Litið hafði jeg ástaraugum mjög fljótt til annars pilts í Reynivallasókn“. Vinkonu minni þótti þetta sérstakt orðalag upphaflega en setti það síðan í annað samhengi þegar séra Halldór rekur löngu síðar í bókinni atvik skömmu eftir andlát konunnar sem lauk með því að hann var vistaður á Kleppi. Þá bað hann „ungan mann, ástvin minn frá mörgum undanförum árum“ að heimsækja og spurði hann spurninga um eitthvað óorðað „sem mjer ljek mjög hugur á að fræðast um“ en er svo óánægður með svörin að hann hrekur manninn burt og er skömmu síðar kominn á Klepp.
Þetti þótti vinkonu minni fremur opinská lýsing á ást prestsins á þessum ungu mönnum og vildi vitaskuld bera hana undir sinn helsta bókmenntafræðing. Þó að ég viti auðvitað ekkert hvað fólk er að hugsa eða hvernig því líður fyrir utan það sem það sjálft segir finnst mér orðalagið merkilegt líka og velti mjög fyrir mér þeim bókum sem séra Halldór segist hafa skrifað á Kleppi en síðan brennt og eins hvað Kjósverjar og aðrir lesendur hafi hugsað þegar bókin kom út. Var hæfileiki þeirra til að leiða hjá sér allt óþægilegt botnlaus? Þó að bókin sé vitaskuld ekki jafn vel skrifuð og Ævisaga séra Árna Þórarinssonar er hún ákveðið svar við henni, saga um mann sem elskaði sóknarbörn sín mikið og hefur ekkert nema gott um alla að segja, líka eiginkonuna sem hann afgreiðir þó snemma og fólkið sem hann kynnist á Kleppi. Verandi alinn upp á tímum þar sem „Kleppari“ var svæsið skammaryrði get ég ekki annað en undrast að þessi máttarstólpi samfélagsins sem var ekki aðeins prestur heldur oddviti í 25 ár hafi rætt svona opinskátt um veru sína þar og á þeim tíma skammarlegar ástæður hennar sem hann vill þó segja öllum frá.