Ekki líta við, Orfeus
„Eins og hamar ótt á steðja /uppá þaki regnið bylur“ orti skáldið Megas á sínum tíma um Orfeus og Evridísi, eitt af hans allra fallegustu söngljóðum. Þessi sama goðsögn og aðrar grískar goðsagnir um Hades og Persefónu og Demeter eru innblástur Ernu Ómarsdóttur í Hringjum Orfeusar og öðru slúðri, nýju og afar metnaðarfullu dansverki sem Íslenski dansflokkurinn flutti á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu í vor. Ég hef ekki verið tíður gestur á hérlendum danssýningum þar sem nútímaleg dansverk eiga til að valda mér innilokunarkennd sem kannski stafar af niðurbældum minningum úr leikfimitímum fortíðarinnar. Þar sem frændi minn saxófónleikarinn kemur fram í sýningunni breytti það auðvitað öllu og því lét ég sjá mig í þetta sinn og er þakklátur fyrir.
Ég þekki goðsögnina vitaskuld ágætlega þó að það kæmi að takmörkuðu gagni í svona hámódernísku og túlkandi dansverki þar sem ýmsu ægir saman. Platón vísaði í hana í Samdrykkjunni og bæði Virgilius og Ovidius röktu hana í sínum ljóðum en hringjunum mundi ég þó ekki eftir og raunar fáu sem kom fyrir í sýningunni, t.d. ekki tengslum Orfeusar við Jason en ég tók þó eftir gullna reyfinu um miðbik sýningarinnar. Sýningin er sannkölluð veisla fyrir augað þar sem hvert magnaða atriðið rekur annað og mér líkaði afar vel við hana eftir því sem á leið, einkum þegar dansararnir voru að gera það sem þeir gera best, þ.e. að túlka goðsagnirnar og tilfinningarnar í þeim með hreyfingum. Samspil þeirra var afar gott, stundum runnu þau saman í eina heild (stundum hring en stundum lika önnur form) og í mörgum atriðum var áhugaverður leikur með hljóð, t.d. þóttist ég heyra í úrverki í einu atriði. Einhver kallaði þetta skynfæraveislu í hlénu og undir það get ég tekið, það er mikil litadýrð á köflum og maður er á nálum að hlusta og missa ekki af neinu.
Nú hef ég sem sagt ekki verið duglegur að mæta en minnir að þetta sé heldur stærra í sniðum en sum fyrri verk Íslenska dansflokksins og heldur meira textamagn en vant er. Ekki fannst mér þó styrkur verksins liggja í því þar sem stöðugt var flakkað milli íslensku og ensku og stöku sinnum annarra mála (kannski vegna þess að eldri gerð verksins var sýnd erlendis) og dansararnir ná sjaldan sömu leikaraframsögn og maður á að venjast á sviði Borgarleikhússins þannig að stundum skildi ég mest lítið hvað þau voru að segja en þegar ég skildi textann fannst mér hann frekar flatur þó að margar hugmyndir hans séu áhugaverðar. Kannski var það vegna þess að rétt hjá mér sat Þórarinn Eldjárn að það hvarflaði að mér að ef til vill hefði mátt leita til kunnáttumanna til að bæta textann en kannski var höfundurinn að reyna að segja eitthvað með því að láta dansarana kallast á yfir sviðið á fremur vondri ensku en þegar þeir notuðu íslensku meira fóru þeir yfirleitt mun betur með hana. Eins liggur styrkur dansflokksins ekki í söng en kannski var punkturinn einmitt að sýna það. Þá fannst mér gamli slagarinn með Kiss, „I was made for loving you, baby“ frekar ofnotaður en hitt. Hinn franski F. R. David sem við sem vorum uppi árið 1982 munum vel eftir var svo tekinn í lokin ásamt risastórri hljómsveit ungmenna og er á sinn hátt yfirlýsing um gildi þeirrar tjáningar sem í dansinum felst.
Að öllum veikleikum nefndum var margt í sýningunni til að hrífa mig, ég held að ég sé sennilega eini maðurinn sem fannst þáttur Íslenska dansflokksins það besta við Njálusýningu Borgarleikhússins um árið og öfugt við suma aðra sem voru á sýningunni fannst mér þessi Orfeus-sýning halda dampi allan tímann og fjölbreytnin kostur frekar en galli. Sérstaklega var gaman að fylgjast með dönsurunum sem túlkuðu Orfeus og Evridísi og Hades kom líka sterkur inn í það sem ég kalla með sjálfum mér Rammstein-hluta sýningarinnar en dansararnir unnu mikið sem heild og áherslan ekki á einstaklinga þó að sumir dansararnir séu efni í stjörnur. Best er verkið þegar sem fæst er sagt þó að í því sé skemmtilega unnið með hljóð og búninga líka og ekki veitti af stóra sviðinu fyrir allt sem þarna var á seyði.