Alistair og gervigreindin
Næturlestin er breskur spennuþáttur sem var á RÚV frelsi síðsumars, sex þættir. Lest er rænt af bíræfnum tölvuhökkurum og við fylgjumst með farþegunum í þessari úlfakreppu (ekki fyrir fólk með innilokunarkennd) og fólkinu í öryggismiðstöð lesta sem er að reyna að leysa málið. Þar eru fremst í flokki lögreglumaður einn sem er þó á flótta undan réttvísinni líkt og hetjurnar í bókum Raymonds Chandler og þeirra allra og síðan kona sem stjórnar á stöðinni og er treyst fyrir mikilli ábyrgð í öllu þessu kaosi. Þau eru leikin af Joe Cole og Alexöndru Roach, myndarlegu pari á fertugsaldri og standa vel undir því að vera þungamiðja þáttarins en auk þess eru aðrir ellefu farþegar og starfsmenn sem urðu eftir í stjórnlausu lestinni sem þarf að hemja og kollegarnir í öryggismiðstöðinni áhugaverðar persónur eins og stundum gerðist í bestu hasarmyndum 8. áratugarins.
Snemma er kynnt sú flétta að meðal farþeganna og starfsmannanna í lestinni sé einn svikari og ég var að springa úr spennu allan tímann eins og þegar Alistair McLean heitinn var upp á sitt besta forðum daga og gerði út á nákvæmlega þetta minni. Þó að umfjöllunarefnið séu tölvur, netið, sjálfvirkni og gervigreind er þetta hefðbundin spennumynd í þeim góða stíl sem var upp á sitt besta fyrir 50-60 árum þegar kvikmyndir voru kvikmyndir.
Farþegarnir sem eru eins konar gíslar eru skemmtilega blandaður hópur. Meðal þeirra eru fötluð menntakona, 12 ára strákur, stúdent sem er viðriðin fíkniefni, gamall veikur fv. lestarstjóri (leikinn af hinum þekkta James Cosmo) og tengdadóttir hans, frekur kall, skuggaleg blaðakona, samgönguráðherrann sjálf (að sjálfsögðu er hún ómöguleg eins og allir stjórnmálamenn í afþreyingarefni seinustu 40 ára en a.m.k. ekki skúrkur þáttarins), æstur olíupallsstarfsmaður og tveir lestarþjónar. Af því að þetta er breskt líta mörg þeirra út eins og venjulegt fólk fremur en ofurfyrirsætur. Fólkið á stöðinni virðist allt frekar hæfileikaríkt (þar er m.a. David Threlfall sem eins konar unabomber) því að Bretar bera enn virðingu fyrir kerfinu og opinberum starfsmönnum. Kannski eru þau samt full hnyttin í tilsvörum eins og fólk er gjarnan í svona þáttum og auðvitað eru líka skuggalegri öfl á ferð á vegum hins opinbera. Hakkaranir sem geta rænt lestinni á rafrænan hátt virðast næstum ofurmannlegir á köflum en eru meira og minna ósýnilegir þannig að maður fær enga sérstaka tilfinningu fyrir þeim.
Stundum minnir myndin svolítið á gamla smellinn Speed sem var hin besta skemmtun en ekki alltaf mjög greindarleg (talsverð þörf á „willing suspension of disbelief“) og vandinn við fléttuna er kannski að halda gangi í fléttuna um stjórnlausa lest í 270 mínútur en ekki aðeins tvo tíma og þegar maður hefur horft svolítið lengi á þátt um hakkarastýrða lest fer manni að finnast þetta allt svolítið bjánalegt. Hættan er líka sú að fléttan fari að teygjast og togast í ýmsar áttir og verði kannski svolítið kjánaleg á köflum. Þannig fer þegar Næturlestin er komin á þátt 5 og fjarlægja þarf aðra aðalpersónuna tímabundið til þess eins að draga syrpuna á langinn og halda sögunni áfram. Allar lausnir á vandanum eru teknar að gerast fáránlegar en samt virka þær sumar. Ég hef oft séð það verra í Netflix-spennuþáttum en sannarlega missir sagan dampinn við þetta allt.
Það væri gaman ef það hefði verið aðeins meira raunsæi í sjálfri framvindunni því að það er ágætlega unnið með persónurnar. Þátturinn hefur verið gagnrýndur eitthvað fyrir að persónurnar séu of mikil frjálslynd draumsýn (í einu atriðinu vinna vissulega asísk, svört, samkynhneigð, of þung og fötluð persóna saman að lausn málsins ásamt flóttamanni) en er einhver ástæða til að fjargviðrast yfir slíku þar sem þetta er ekki eiginlegur veikleiki þáttarins heldur fremur að fléttan er of flókin og torskilin og það er hreinlega of miklu efni troðið inn í þennan þátt.