Brosmild ádeila
Ýmsar bækur koma út á hverju ári sem eru þó ekki hluti af hinni miklu flóðbylgju sem allt snýst um en kannski meiri bókmenntir samt. Ein slík er Milljón punda seðillinn, hin þekkta smásaga Marks Twain sem Mídas gefur nú út í þýðingu Guðna Kolbeinssonar. Að þessari þýðingu er talsverður menningarauki enda sagan snjöll ádeila á auðhyggjusamfélagið sem var að fæðast árið 1893 þegar sagan kom fyrst út undir heitinu „The Million Pound Bank Note“. Twain bjó þá í Manhattan og gat þar virt fyrir sér það sem koma skyldi.
Sagan snýst um hinn venjulega skrifstofumann Henry Adams sem lendir í sjóslysi og kemur til Lundúna í tötrum þar sem tveir sérvitrir bræður taka eftir honum og nota í aðalhlutverk í veðmáli sínu og gefa honum milljónpundaseðil sem virðist bjarnargreiði þar sem hver tekur við slíkri upphæð? En með seðilinn í vasanum fær Henry endalausan kredit og að lokum auðgast hann í raun á viðskiptum með námu. Hans sanna auðlegð er þó bresk stúlka sem hann kynnist í veislu núna þegar honum er boðið allt og reynist hún vera dóttir annars bróðurins.
Þeir sem muna eftir kvikmyndinni Trading Places átta sig kannski á að þessi saga Twains og sagan Prinsinn og betlarinn eru innblástur þeirrar kvikmyndar þó að hún sé raunar mun beiskari en hin góðlátlega frumsaga enda var Twain iðulega frekar vænn ádeiluhöfundur, líkari hinum brosmilda Hórasi en hinum reiða Júvenal. Milljón punda seðillinn er í eðli sínu saga sem lætur lesendum líða vel þó að í henni sé broddur, aðallega vegna þess að Henry er ráðagóður og snjall og fótar sig vel í sinni nýju og óvenjulegu stöðu. Hann var enda leikinn af Gregory Peck í þekktri kvikmynd sem ég man eftir að hafa séð í Sjónvarpinu vorið 1985.