Falinn áfangastaður

Ég nældi mér í bók eftir hinn ungverska Krasznahorkai Laszló (f. 1954) tveimur tímum áður en hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels eftir að ég hafði frætt vini mína í leshringnum um tilvist hans kvöldið áður og meðal annars hrækt hans hljómmikla nafn á hópinn. Hef ég sjaldan verið jafn sannspár um Nobbann áður en það var sannarlega einhver tilfinning í mér í þetta sinn. Ég hafði nefnt hið sama við minn besta ungverska vin sem fannst afar ólíklegt að Krasznahorkai ynni, þessi vinur minn er bæði svartsýnasti og jákvæðasti maður sem ég þekki á sérstæðan ungverskan hátt; þessi þjóð á aldrei von á góðu þó að hún lifi í fegurð. Það er kannski talandi dæmi að þegar Tolstoj skrifaði Stríð og frið hefur Krasznahorkai skrifað skáldsögu sem nefnist Stríð og stríð.

Áður þekkti ég Krasznahorkai fyrst og fremst sem handritshöfund Kárhozat eftir Tarr Béla, sannarlega eftirminnileg kvikmynd það og ég fékk sterklega á tilfinninguna að ég ætti ekki endilega að fá neina gleði eða skilning eða neitt handfast úr henni. Ég þekkti líka það orðspor hans að skrifa langar setningar (eins og stundum kemur líka fyrir mig á þessari síðu) og mun ein bók hans, Herscht 07769, vera aðeins ein setning en um 400 síður. Ég er farinn að hneigjast æ meira til langra setninga og skil uppreisnina í því. Það dregur ef til vill úr skilningi með löngum setningum en ekki endilega fegurð.

Mér var sagt af smekkvísum að Heimkoma barónsins, Báró Wenckheim hazatér (2016), væri hugsanlega fremsta og jafnframt fyndnasta verk Krasznahorkai þannig að ég pantaði hana að morgni Nóbelstilkynningarinnar. Þetta er ekki bók sem er auðvelt að lýsa og það sé ég enn þegar ég les ritdóma um hana eftir lestur, hálffeginn að vera ekki eini skilningsleysinginn. Stundum velti ég jafnvel fyrir mér hvort þetta sé einkum þrjóskuleg unglingsmótspyrna skáldsins gegn hefðbundnum frásagnarlögmálum og stílviðmiðum. Ekkert við nafn Krasznahorkai eða raunar klippingu hans bendir til að hann sé aðgengilegur höfundur og sannarlega er Heimkoman bók fyrir lengrakomna. Stundum finnst mér eins og það sé andstætt vilja höfundar að leita merkingar í henni heldur er fremur eins og orðin leiki lausum hala og það verði að gleyma öllu um hefðbundnar leiðir til að lesa til að njóta verksins.

Vinir mínir skáldin vildu svo lesa saman mun styttri bók, Északról hegy, Délről tó, Nyugatról utak, Keletről folyó (2003) þar sem Kraznahorkai er aldrei þessu vant ekki að gegnumlýsa landa sína Ungverja heldur er hann kominn til Japans. Sú bók er eins og langt prósaljóð í fimmtíu erindum, fögur hugleiðing en með fyndnum undirtón, einkum þegar fylgdarlið prinsins birtist á sviðinu. Stundum minnti hún mig örlítið á Skuggabaldur eftir Sjón, kannski vegna þess að óvættur af refakyni kemur fyrir í báðum bókum. Snjallara fólk en ég dáist af bókinni en skilur víst lítið í henni eftir marga flestra. Aðdáendur Krasznahorkai sameinast um að það sé ekki aðalatriðið að ramma hann innan skilnings heldur fylgja honum á óskiljanlegum leiðangi hans.

Next
Next

Útvegir og listir