Sú gamla vaknar af síðdegisblundi
Ég var seint að fara að stilla mig um að horfa á Jurassic World: Rebirth núna í ágúst og enn síður gerði ég þau mistök að búast við miklu og þess vegna kom hún mér skemmtilega á óvart. Eftir að myndirnar eru orðnar sjö virðist óhætt að einfaldlega gleyma öllu um Dominion (öxin og jörðin geyma hana best, hefði Kristján skrifari sagt) og líta á Jurassic World sem slakari endurgerð Jurassic Park, Fallen Kingdom sem slakari endurgerð Lost World og þessi nýja mynd er þá slakari endurgerð Jurassic Park III sem var grínmyndin í hópi fyrri þriggja. Eiginlega er Rebirth ekki mikið lakari, aðeins lengri og hefði verið betri ef hún hefði verið 85-90 mínútur. Þegar best gerist er hún full af hraða og spennu og þykist ekki vera neitt annað en poppkorn. Godzilla-minninu er troðið inn en því hefði mátt sleppa og eins þessu vesalings afskræmi sem fær seinasta hálftímann undir sig. Eins hefði mátt sleppa innganginum þar sem Snickers-bréf veldur eins konar chernobyl-slysi. Jafnvel kjánalegar myndir mega samt ekki verða of kjánalegar. En á milli þessara atriða er myndin að mínum dómi hæfilega kjánaleg.
Það er gaman að fá nýja góða leikara í burðarhlutverkin. Scarlett Johansson er skemmtileg Löru Croft týpa, Jonathan Bailey er tiltölulega sannfærandi vísindamaður og Mahershala Ali er mikill töffari. Svo er enskur leikari sem maður hefur séð 100 sinnum áður án þess að muna hvar og auðvitað í hlutverki vonda ríka mannsins og síðan þrír töffarar til viðbótar í leiðangrinum sem fá tiltölulega snögga afgreiðslu risaeðlanna fyrir þá einu synd að vera aukapersónur. Inn í þennan hóp er svo troðið fjölskyldu á siglingu, pabba og tveimur dætrum sem eiga augljóslega að vera hjarta verksins og kærasta eldri stúlkunnar Xavier sem er ónytjungur og reykir sennilega gras og það blasir svo við að hann verði drepinn og étinn að eiginlega finnst mér það besta við myndina að hann sleppi fremur óvænt fyrir keðju heppilegra tilviljana. Aftur á móti eru allir aðrir étnir sem hægt er að éta nema að Mahershala lifir líka af þó að illa líti út með það á tímabili. Svolítið fyrirsegjanlegt en það var Jurassic Park III sannarlega líka þegar kom að dauðsföllum.
Líklega er það skemmtilegasta við nýju myndina sú kenning að fólk bjargist frá risaeðlum aðallega fyrir hundaheppni en alls ekki fyrir eigin hæfileika. Enginn sem er drepinn getur sjálfum sér um kennt nema vondi karlinn og persónurnar lifa iðulega af einungis fyrir einskæra heppni, m.a. mikið fall, launsátur snareðla og árás hinnar ógurlegu grameðlu sem þau rekast á sofandi værum svefni (en ekki lengi). Þó að þessi nýja mynd setji fá met er þetta besta útlitið á grameðlu hingað til í flokknum. Raunar finnst mér öll atriðin með endurgerðum risaeðlum góð (fyrir utan gamla tyrannosaurus er frekar ógeðslegur fugl með mikinn gogg og svo fáum við spinosaurus aftur en ekki alveg jafn tröllslegan) en atriðin með afskræmdu eðlunum eru meira og minna óþörf og bæta nánast engu við. Myndin hefði betur fylgt dæmi Jurassic Park IIi og verið búin áður en maður vissi af. Þetta eru auðvitað allt meira og minna sömu atriðin og voru í hinum myndunum en þau eru vel tekin og ógervileg.
Ég geri engar athugasemdir við það þó að persónurnar séu iðulega klaufskar og vitlausar; það er bæði trúverðugt og í samræmi við þann boðskap myndarinnar að maðurinn sé sannarlega ekkert merkilegri skepna en risaeðlur og hafi klúðrað tækifærinu sem hann fékk. Ég vildi að ég gæti mótmælt því. Eins er aðallega fyndið hversu oft persónurnar snúa höfðinu hægt við þegar eitthvað spennandi er að fara að gerast fyrir aftan þær eins og unnið var vel með í Jurassic Park III á sínum tíma. Hér er þetta trix svo margnotað að maður fer eiginlega að flissa. Eins er allfyndið hvernig persónurnar sjá iðulega ekki hættuna fyrir aftan sig eða til hliðar. En þannig væri það örugglega í raun ef þessar aðstæður væru mögulegar. Einum þræði er þetta hryllingsmynd þar sem persónurnar eru ofurseldar óvæntum hryllingi. Kannski er það þess vegna sem ein persónan heitir Loomis, hinu fræga margendurnýtta nafni úr Psycho, Halloween og Scream.
Ánægjulegt var að hægt væri að nýta atriði úr hinni upphaflegu skáldsögu Michaels Crichton, Jurassic Park. Sagt er að hún sé byggð á persónum Crichtons en engar slíkar eru raunar í myndinni þannig að ég geri ráð fyrir að það sé átt við grameðluna og sannarlega er hún ekki sísta persóna myndarinnar. Hér er líka hið hefðbundna krúttlega atriði með risavöxnum eðlum sem ekki borða kjöt og eru þar af leiðandi skilgreindar sem hættulausar. Sú tvíhyggja er nú kannski heldur varasöm eins og margir risaeðlufræðingar hafa bent á. Jafnvel í bestu myndinni er margt sem alls ekki stenst, t.d. að smávaxin eðla myndi ráðast á risastóra. En dágóð skemmtun eru þær flestar. Ég held að Rebirth sé líklega komin í 3-5. sætið þegar kemur að líkum á því að ég beinlínis nenni að horfa á myndina aftur til enda (við hlið Lost World og Jurassic World) þó að mér finnist líklegra að ég muni aðeins taka 75% hennar aftur og sleppa endinum geispavekjandi.
Já, annað sem ég vil hæla myndinni fyrir er að fyrir utan tvær trölleðlur á engin pörun eða kynferðisleg áreitni (já, ég er að tala um þig, Jeff Goldblum) sér stað þó að í henni séu þrjár áberandi kvenpersónur (fyrir utan eðlurnar). Bailey og Johansson ná vel saman en eru augljóslega ekki par og jafnvel stelpan sem á kærasta er tiltölulega lítið upptekin af því mestalla myndina. Svo er atriði í myndinni þar sem litla stelpan fer að fóstra krúttlega risaeðlu og kallar hana Dolores sem minnir okkur á að upphaflega hugmynd Henry Wu í bókinni (þar dvelja enn margar góðar ónotaðar hugmyndir) var einmitt að búa til fallegar gæludýrarisaeðlur í stað þess að klóna „rancorinn“ úr Star Wars sem vísindamennirnir í þessari mynd hafa samt óskiljanlega álpast til að gera.