Sjakalar, næturgalar og málaliðar

Í júní síðastliðnum andaðist spennusagnahöfundurinn Frederick Forsyth og ég hygg að það væri óheiðarlegt að minnast hans ekki þó að fáir hafi snobbað fyrir honum, en ég las bækur hans af kappi á táningsaldri (sumar oft) og naut þess þá að fjórar þeirra voru þýddar á íslensku af sjálfum Hersteini Pálssyni sem einnig þýddi Doddabækurnar og Stjörnustríðsbókina og hafði þannig talsvert vægi í íslenskunámi mínu. Nú var Frederick Forsyth ekki góður höfundur í sama skilningi og Proust eða Hemingway og ég flissaði óneitanlega með að drepfyndinni gagnrýni Gore Vidal á Odessuskjölin þar sem hann stórefaðist um að enska væri móðurmál Forsyths. Hinu er ekki hægt að neita að Forsyth hafði sérstaka hæfileika við spennusagnagerð, þann að gera lesendur spennta með lýsingu á tæknilegum hliðum voðaverka, t.d. hvernig útlagar fara að því að ná sér í byssur og skilríki. Þar með sannaði Forsyth að jafnvel hálfgerður handbókatexti getur verið afar spennandi, en það vissi höfundur Njálu auðvitað fyrir sem ákvað að nota marga kafla í sögu sinni í ræðuhöld á alþingi.

Ég las fjórar bækur Forsyth á íslensku í æsku: Dag sjakalans, Barizt fyrir borgun, Odessaskjölin og Næturgali við njósnir sem komu út hér á landi árin 1972-1979. Sennilega var það 1982-1985 sem ég var einna handgengnastur þessum bókum og samdi meðal annars smásögu í 7. bekk sem var sótt beint þaðan (veslings Jenna skildi sennilega ekkert í þessum áhrifum en lét á engu bera); þetta var öld Alistair McLean en hann var þó aldrei til á mínu heimili, öfugt við Forsyth (á ensku sem bættist í hóp minna lestrarmála 1984-1985). Líklega las ég Næturgalann fyrst en þar er leiðtogi Sovétríkjanna óvænt söguhetja, raunar afar óvænt því að annars var Forsyth dæmigerður breskur íhaldskarl og fullur af hvers kyns fordómum gegn hommum og kommum og öðrum nýlundum og veitti þeim ítrekað útrás í sögum sínum. Samt er ekki hægt að neita því að hann hafði feykigott vald á frásagnarlist þegar hann var upp á sitt besta og enn nota ég hvert tækifæri til að horfa á kvikmyndina sem gerð var eftir Degi sjakalans en þar eru Edward Fox og Michel Lonsdale í aðalhlutverki. Þá bók á ég líka á ensku og fjórar aðrar bækur úr búi pabba sem var vissulega mikill hasarbókamaður. Ég held að honum hafi aldrei þótt jafn mikið koma til Forsyth og John Le Carré eða Len Deighton en það segir þó sína sögu að hann hélt í bækurnar og það hef ég líka gert.

Forsyth var sem sagt karlremba, rasisti og hómófóbískur meðan hann var hvað bestur höfundur og sannarlega unnandi eitraðrar karlmennsku; stundum getur verið óþægilegt að lesa hann út af þessu öllu en snilld hans í byggingu og annarri frásagnarlist er samt ótvíræð, hann er Arnaldur í öðru veldi, og veldur því að ég treysti mér ekki til að taka að fullu undir diss Gore Vidal á hann en sá háðski snillingur kallaði bækur Forsyth „splendid Fu Manchu nonsense“, og viðurkenndi þannig óbeint að Forsyth hefði sína hæfileika. Eflaust er meira að gera fyrir bókmenntafræðinga að stúdera dýpri, einlægari og greindarlegri spennusögur Le Carrés eða Deightons. Forsyth er fyrst og fremst handverksmaður sem kann að skapa spennu en hefur kannski ekki margt áhugavert fram að færa. Í Næturgalabókinni hefur hann þó víkkað sjónarhornið aðeins og þar tekur enski agentinn sem er í öndvegi að sér verk sem er siðferðislega ámælisvert en í þágu heimsfriðarins en auðvitað öðrum þræði vegna sovéskrar ástkonu sinnar. Síðar kemur í ljós að hún var allan tímann að vinna fyrir aðalritara Kommúnistaflokksins og var fjarri því að vera sá gagnnjósnari sem lesandinn er látinn halda.

Þrátt fyrir alla áðurnefnda rembu og vestræna yfirburðahyggju Forsyths (sem sannarlega elskaði Churchill, Thatcher, Ísrael, Rómanov-ættina og sennilega Franco og Pinochet líka) kemur skýrt fram í Næturgalanum að hann telur heimsfriðinn og framhaldslíf mannkynsins mikilvægari en allt kjaftæðið sem rennur upp úr talsmönnum „vestrænna gilda“ og öllum þessum „herfræðingum“ og sem aldrei fyrr þessa dagana (og Ísland sker sig því miður ekki úr). Hann hafði vissulega ferðast víða og bjó yfir mikilli þekkingu og einhvern sexappíl hefur hann haft úr því að hann hélt við sjálfa Faye Dunaway upp úr 1970. Þess vegna get ég þannig séð sætt mig við Forsyth (sem mann sinna tíma og samfélags) um leið og ég hlýt að dást að handverki hans og hunsa skoðanirnar.

Next
Next

Kirk hleypur á árunum