Feimulaus fjallgarpur

Þó að það sé oftast haft fyrir satt að Edmund Hillary og Tenzing Norgay hafi orðið fyrstir á hæsta tind jarðar, Everestfjall er það engan veginn öruggt og þeir sem oftast eru nefndir til sem hugsanlega á undan Hillary og Tenzing eru George Mallory (1886–1924) og Andrew Irvine (1902–1924) sem létust á fjallinu í júní 1924. Þeir höfðu áður sést í námunda við tindinn en voru auðvitað ekki til frásagnar um hvort honum var náð áður en þeir fórust. Hvað um það blasir við að þetta voru fáheyrðir atgervismenn sem reyndu á þol líkamans umfram flesta samtíðarmenn. Færri vita að áður en Mallory helgaði sig alfarið hæstu fjöllum veraldar hafði hann verið kennari í einkaskóla og skáldið Robert Graves lýsti honum raunar sem besta kennaranum þar sem hafði vakandi áhuga á nemendum og opnaði alls konar fræðilegt efni fyrir þeim með lífsgleði sinni og forvitni. Mallory var rómantísk og tilfinningaþrungin sál. Strax í bernsku hafði prestsonurinn þó fundið eiginlega köllun sína þegar hann var ítrekað staðinn af því að klifra upp á kirkjuþakið heima. Á þessum tíma voru líka Amundsen, Scott og Shackleton helstu hetjur ungra manna.

Enn færri vissu a.m.k. lengi vel að Mallory var í miklu vinfengi við systur Virginiu Woolf, Vanessu Bell, en hún átti þá í ástarsambandi við málarann Duncan Grant. Þau hrifust bæði mjög af hinum íþróttamannslega Mallory og hann sat fyrir hjá þeim báðum. Ég læt nokkrar ljósmyndir Bell af Mallory fylgja þessari grein en ekki þó þær sem mesta anatómíu sýna því að ekki vil ég láta bandarísk tepruforrit banna síðuna. Þá hafa varðveist ýmis bréf frá honum til ýmissa listamanna í Bloomsbury-hópnum sem benda til að hann hafi verið afar frjáls andi, daðrað stanslaust við bæði kynin og gantast mikið með hið persónulega. Eftir að hann giftist skrifaði hann afar innileg ástarbréf til eiginkonu sinnar sem var svo óheppin að þurfa að deila manninum sínum með hæsta fjallstindi heims. Þegar hann var orðinn fjallgöngugarpur kom sami bóhemaandi fram, t.d. á varðveittri mynd af honum með tveimur öðrum háfjallaförum þar sem Mallory er klæddur bakpoka sínum einum á fjallinu.

Everest hafði vakið áhuga Mallory í æsku. Vesturlandabúar vissu fátt um þetta fjall fyrr en árið 1852 en skömmu síðar var það mælt og reyndist þá luma á hæsta tindi veraldar, ferföldum Hvannadalshnjúk sé miðað við fjarlægð frá sjávarmáli. Mallory var orðinn 35 ára þegar hann sá sjálft fjallið fyrst eigin augum en hafði þá verið heillaður af hugmyndinni um hátind heimsins árum saman meðan hann kenndi strákum í einkaskóla. Leiðangur þeirra Irvine mun hafa verið þriðja tilraun hans til að ná tindinum og kannski sú seinasta sem Mallory gat reiknað með að fá að fara í fyrir skyldum sínum heima en Irvine var efnafræðistúdent og þekktur íþróttagarpur sem hafði meðal annars farið í frægan leiðangur til Svalbarða. Mallory var síðan týndur á Everest í 75 ár en lík hans fannst loksins árið 1999. Leifar af Irvine fundust aftur á móti ekki fyrr en nýlega; það mun hafa verið fóturinn. Ekki skýrðu þær hvað kom fyrir fjallgöngugarpana eða hvenær. Mallory hafði augljóslega hrapað í fjallinu en engin leið er að vita hvort það gerðist áður en hann komst á hátind heimsins eða eftir. Um Irvine vitum við það eitt að hann dó líka á Everest en ekki hefur fundist nóg af honum til að varpa frekara ljósi á kringumstæður.

Þökk sé ljósmyndatækninni vitum við aftur á móti mjög vel hvernig þeir litu út og sérstaklega Mallory sem öllum félögum hans fannst sérstakt glæsimenni (neðsta myndin er aftur á móti af Irvine fullklæddum sem ferðaðist enda ekki í neinum bóhemakreðsum og engar nektarmyndir til). Hann tjáði sig meðal annars skriflega um þá reynslu að láta taka myndir af sér nöktum heima hjá Vanessu vinkonu sinni og sagði hana afar áhugaverða (‘I’m profoundly interested in the nude me’); hann hefði því sennilega stutt þessa myndbirtingu hér. Líka má finna myndir af líki hans sem klifrarinn Conrad Anker fann í 8200 metra hæð árið 1999 á netinu en þær eru vitaskuld óskemmtilegar og því ekki birtar á þessari annars jákvæðu síðu þó að líkið hafi samt varðveist merkilega vel í öll þessi ár.

Previous
Previous

Fjölhæf listakona

Next
Next

Í steininum