List hins ósagða

Picnic at Hanging Rock (1975) er ein örfárra kvikmynda sem ég hef útvegað mér á dvd-diski vegna þess að ég get ekki hugsað mér að vera án hennar. Mig minnir að ég hafi fyrst séð þennan ástralska gullmola í sjónvarpi eða á spólu en gerði mér síðar ferð í Háskólabíó að sjá hana aftur (sennilega vorið 2002) vegna þess að mig virkilega langaði til að líta einmitt þessa mynd í bíó. Ég sá hana aftur í sumar vegna þess að góðvin minn langaði að sjá hana á ný og ég hef líka lesið bókina eftir Joan Lindsay (sem kom út þegar höfundur var 71 árs) og er mjög þakklátur ritstjóranum sem bannaði henni að birta lokakaflann þar sem allt er útskýrt vegna þess að stundum er betra einmitt að skýra ekki og þessi mynd lifir á magnaðri dulúðinni sem er sérdeilis vel fönguð í myndum og hljóði í þessari mynd. Peter Weir var þrítugur þegar hann leikstýrði Picnic og þó að hann hafi gert margar góðar myndir síðan (t.d. The Mosquito Coast og The Dead Poets Society) jafnast engin á við þetta snilldarverk hans. Ég get jafnvel fyrirgefið honum notkun hans á panflautum í myndinni en hún er raunar einnig full af dulúðugri og magnaðri tónlist, bæði eftir Mozart og Beethoven og auk heldur er gæsahúðarpíanóstef eftir Bruce nokkurn Smeaton í einu sterkasta atriði myndarinnar.

Öll flétta kvikmyndarinnar er skýrð í upphafi með inngangstexta í anda Star Wars: þrjár stúlkur og einn kennari hurfu í lautarferð til Hanging Rock einn sumardag árið 1900 þó að ein þeirra fyndist aftur viku seinna. Þetta leiddi til hruns sjálfs skólans og að lokum sjálfsmorðs skólastjórans og um þetta fjallar myndin, við vitum allan tímann hvað muni gerast en spennan minnkar alls ekki við það. Í upphafi sjáum við hvítklæddar stúlkurnar sem minna helst á engla, sérstaklega hin fagra og loftkennda Miranda sem allir hrífast af. Hin stúlkan sem hverfur er aftur á móti afar hversdagsleg og kennarinn er hvorki fögur né loftkennd heldur harðsnúinn stærðfræðihaus sem hefur raunar mikla jarðfræðiþekkingu líka og getur farið með hann með nánast ljóðrænu orðalagi á leiðinni til klettaborgarinnar dulúðugu. Hvarfi hennar er raunar aðeins lýst í myndinni, aldrei sýnt þó að mig minni alltaf að ég hafi séð það vegna þess hve sterk lýsingin er. Í skólanum skipta fleiri kennarar máli, einkum hinn fagri og skilningsríki frönskukennari sem er leikin af Helen Morse sem var mjög áberandi á 8. áratugnum og þjónustúlkan Minnie, leikin af Jacki Weaver sem löngu síðar sló rækilega í gegn (ekki þó sú zoomfundarfræga). En eftirminnilegastar eru þó hin óhagganlega McCraw sem þó kemur á óvart með því að gufa upp í klettunum og hin mikilúðlega ekkja frú Appleyard sem stýrir skólanum með harðri hendi og er með eina stórkostlegustu hárgreiðslu kvikmyndasögunnar. Hún er leikin af hinni velsku leikkonu Rachel Roberts sem því miður átti ansi nöturleg örlög, eftir misheppnað hjónaband með Rex Harrison og svo stórkostlega ofdrykkju að jafnvel hinum vodkalegna Richard Burton blöskraði innbyrti hún að lokum hreinsilög og féll að lokum örend gegnum glervegg heima hjá sér, aðeins 53 ára.

Í upphafi myndarinnar er þó öll áherslan á stúlkurnar í sínum efnismiklu hvítu englakjólum og einkum ástarsamband Söru og Miröndu sem Sara yrkir ljóð til en raunar virðast allir í myndinni elska þá síðarnefndu. Sara hins vegar er eins og ljóti andarunginn í skólanum, er þar upp á náð frú Appleyard því að forráðamenn hennar hafa ekki borgað. Hún er bundin og barin og stundum er engu líkara en hinir voveiflegu atburðir séu kosmísk refsing fyrir meðferðina á Söru sem þó var ekki með í ferðinni (fékk ekki að fara) og er þar af leiðandi utan við hina voveiflegu og óskiljanlegu atburði. Fyrir utan Söru eru allar stúlkurnar í raun bundnar því að þær eru reyrðar í magabelti í upphafi myndarinnar og síðar verður stórt atriði í myndinni að magabelti hverfur þó að læknirinn sé alltaf við höndina til að fullvissa aðstandendur um að stúlkurnar séu „óspjallaðar“. Það á t.d. við hina ókynþokkafullu Edith sem er bústin og stöðugt hamrað á ólögulegum líkamsvexti hennar. Hún eltir hinar þrjár stúlkurnar upp að klettinum en þorir ekki alla leið og kemur hrjáð og hrakin til baka, hafandi mætt raungreinakennaranum McCraw á leiðinni upp á hólinn á brókinni einni.

Fyrir utan kennara og nemendur skólans er allt samfélagið á sviðinu eftir atvikið, einkum þegar líður á myndina: læknirinn, lögreglustjórinn og jafnvel garðyrkjumaðurinn. Ekillinn jarðbundni Hussey er skemmtilega á skjön við allar fallegu og hvítklæddu stúlkurnar en hann sést ekki meir eftir miðja mynd. En síðan er líka annar hópur við klettinn daginn sem stúlkurnar hverfa sem sennilega væri grunaður um að valda því ef fólkið sem á í hlut væri ekki of fínt, Fitzhubert-fjölskyldan enska þar sem hinn ungi Michael er þungamiðjan ásamt þjóni sínum Albert. Þeir eru sannarlega ekki eins og Frodo og Sam en samskipti þeirra eru hlaðin af einhverju ósögðu; Michael er ungur og óöruggur og háður hinum aðeins eldri en munaðarlausa og afar ástralska Albert sem jafnvel setur bíræfinn upp háhatt meistara síns (sjá að ofan) sem er alltaf fáránlega ofklæddur fyrir ástralska hitann vegna þess að þjóðfélagsstaða hans krefst þess. Þeir Albert skiptast ekki aðeins á fötum heldur drekka úr sömu flösku og eru nánir á óskilgreindan en ekki allsendis óhómóerótískan hátt. Michael heillast af stúlkunum sem þeir hitta við klettinn, einkum auðvitað Miröndu. Albert hins vegar er ósnortinn og er sennilega einungis fyrir Michael þó að það sé aldrei sagt beinum orðum en sterklega gefið til kynna með þöglu spennunni milli félaganna. Að lokum fer Michael í einkaleiðangur upp að klettinum gleypna og finnur eina stúlkuna, ekki þó þá sem hann þráði að finna. Hann hafði gripið fatabút þegar hann bugast af hitanum og er fluttur burt til aðhlynningar. Það er þá Albert sem að lokum finnur hina horfnu Irmu og bjargar þó að hans leiðangur hafi aldrei snúist um þessar stúlkur heldur húsbóndann Michael.

Ekkert batnar þó við að Michael og Albert finni Irmu. Eins og frú Appleyard segir beinum orðum af pólitísku innsæi sínu gerir það bara illt verra að finna eina þegar hinar eru allar týndar áfram. Skólinn hennar fer enda að hrynja í kjölfar þessara dularfullu atburða, hún sjálf fer að drekka og ræða fortíðina óyfirvegað og níðist botnlaust á Söru sem er kannski sú eina sem tekur þetta allt meira nærri sér en skólastjórinn sjálf. Þegar Irma snýr aftur til skólafélaga sinna ráðast þær síðan að henni eins og ágengir hettumávar nálægt pylsustandi. Irma getur í raun ekkert snúið aftur þó að hún sé furðulega lítið meidd og „óspjölluð“ að sögn læknisins. Hún sést ekki meir eftir það, Sara er flæmd úr skólanum sem er hvort sem er að missa allar stúlkurnar og hár frú Appleyard lætur æ verr að stjórn. Karlarnir skeggræða um málið furðu lostnir en það virðist ekki koma þeim við og er handan skilnings þeirra.

Myndinni lýkur án lausnar, á skólastjóranum sitjandi við borð sitt í sorgarklæðum og svipur hennar er skelfilega galtómur, eins og það sem hefur komið fyrir hana og skólann hennar sé svo yfirþyrmandi að engin leið sé að tjá það með orðum eða svipbrigðum. Sara hefur fundist örend og síðan fáum við að heyra í lokin að skólastýran hafi hrapað úr klettinum skömmu síðar og skólanum hafi verið lokað. Þetta virðist vera eins konar yfirnáttúruleg refsing fyrir míkrósadismann í skólanum sem þó er fjarri því að vera yfirgengilegur en kannski er það einmitt galdur myndarinnar að hún treystir áhorfendum til að finna til og tjáir hinn mikla harm þeirra sem eftir standa eftir hinn óskiljanlega viðburð án mikilla láta. Picnic at Hanging Rock batnar við hvert áhorf og vaxandi þroska áhorfandans. Ég sá líka þættina sem Sjónvarpið sýndi um árið og voru ágætir en liðu fyrir það að ekki er hægt að gera betur en Peter Weir tókst fyrir hálfri öld.

Previous
Previous

Citius, altius, fortius

Next
Next

Veröld vatnsins