Ölerfingjarnir

Það er ekki alltaf auðvelt að eiga peninga eins og maðurinn sagði. Við aðdáendur Succession höfum komist að þeim forna sannleika sem ýmsir Shakespearekóngar miðla líka. Ég sá aldrei Bryggeren á sínum tíma þó að ég hafi iðulega fengið mér einn Carlsberg fyrir svefninn haustið 1998. Veit fátt eitt um Guinnessfjölskylduna annað en að ódrekkandi bjór er við hana kenndur og einnig heimsmetabók sú sem allir strákar elskuðu þegar ég var 7-9 ára og varð til á dögum annars jarlsins af Iveagh en sá fyrsti kemur við sögu í þáttunum House of Guinness. Bræður hans hurfu aftur á móti frá fyrirtækinu og urðu að láta sér nægja að verða barónar af Ardilaun og Guinness (sem er ekki jafn fínt og að vera jarl). Ég var ekki viss um að þessi þáttaröð væri við mitt hæfi eftir fyrsta þáttinn sem snerist allur um átök kaþólskra og mótmælenda (rækilega útjaskað efni í minni æsku) en síðan sækir hann talsvert í sig veðrið. Mér fannst þátturinn í fyrstu full írskur, næstum paródískt, og ekki síst James Norton talandi með sterkum hreim í gervi dólgsins og handrukkarans Rafferty sem mig grunaði strax að kæmi standandi niður í lokin. Norton hreyfir sig með mikilli sveiflu enda vanur maður þegar kemur að tuddum. Annars er það hinn kornungi og snoppufríði Louis Partridge sem geislar af í hlutverki hins stífa og virðulega Edwards (með afar háa hatta og loðkraga); hann ræður bæði yfir fagmannlegum fyrirlitningarsvip en líka hrjáðum svip viðskiptamanns í viðsjárverðum heimi.

Ekki er að öllu leyti fylgt óskráðum reglum um 19. aldar sjónvarpsþætti, t.d. er tónlistin hávært rokk, popp eða rapp eða írsk sekkjapíputónlist, nú já, og svo má nefna ótrúlega mikla notkun persónanna á f-orðinu sem var óboðlegt á filmu fyrir daga Eddie Murphy. Áhrifin frá Succession og Peaky Blinders (eftir sama höfund) eru augljós. Sagan hefst á því að Benjamin Guinness deyr árið 1868 (um svipað leyti og írski þjóðernissinninn Michael Barrett var hengdur opinberlega en um það las ég fyrst í Heimsmetabókinni minni og má kallast írónískt) og skilur hann eftir sig miklar eignir. Ekki er þeim þó deilt jafnt milli barnanna fjögurra heldur fær heilsuveila dóttirin Anne ekkert, fulli sonurinn Ben smáræði en tveir bræður fá nokkurn veginn jafnan hlut, Arthur og Edward, en með því skilyrði að þeir haldi áfram í bruggarabisnessnum sem er óskastaða hvorugs. Hinn eftirtektarsami Edward virðist raunar hinn efnilegasti Michael Corleone og ræður yfir áhugaverðum metafórum um eðli bjórsins og samfélagsins (sjá efstu mynd) en Arthur er upp á karlhöndina og fjölskyldan viðkvæm fyrir fjárkúgun hans vegna enda stefnir hann á þing með aðstoð síns mikla auðs.

Oftast kemur í hlut hins ófeilna Rafferty (sem hvæsir flestar línur sínar eins og hann sé sjálfur Darth Maul) að standa vörð um heiður og hagsmuni fjölskyldunnar þó að hann virðist fremur langa til að fleka hina lösnu dóttur hússins og síðar fleiri konur í fjölskyldunni. Þegar kemur að Bandaríkjaævintýri bruggaranna fá þeir aftur á móti litla ófétið úr Game of Thrones (Joffrey konung) í lið með sér til að hernema þann stóra markað og reynist sá (Byron heitir hann eins og lordinn) hinn dugmesti (og demónskasti) búálfur þó að aðfarirnar gangi iðulega fram af teprunni Edward. Bræðurnir þurfa síðan allir að giftast með aðstoð Assumptu úr Ballykissangel sem er orðin miðaldra eins og við hin. Það gengur óvænt best hjá þeim öfuga — einhver rök eru fyrir þeirri söguskoðun en þau hjónin voru víst barnlaus í raun — og næstbest hjá fyllibyttunni sem þó er veikur fyrir tveimur konum en fyrirmyndardrengurinn Edward á erfitt með að fá sína tilvonandi til að játast sér og bætir ekki úr skák þegar hann fer óvænt að lúlla hjá írskum þjóðernissinna, hinni tápmiklu Ellen, á meðan Arthur er tottaður af fallegum lagermanni (þau eru fáklædd en ekki þeir). Þetta er hin besta sápa og heldur athyglinni vel, ekki síst þar sem leikararnir hafa mikinn sjarma þó að það tæki mig nokkurn tíma að halda öllum heitkonunum aðskildum — Daniella Galligan er eftirminnilegust sem kona Arthurs sem hefur næstum jafn heilbrigt hugarfar og hin dásamlega hagsýna Daphne í Hvíta lótusblóminu. Þáttaröðin reynist auk svo evrópsk að strax í þætti 3 er Arthur farinn að veifa slöngunni um allt.

Guinnessættin kafar kannski ekki á sama dýpi og Succession en fyrsta syrpan er þó vel einnar messu virði og engu síðri en t.d. The Crown eða annað sögulegt efni sem hefur seitt marga að sjónvarpinu seinustu misserin. Systkinasamböndin reynast margbrotin þegar hagsmunirnir eru miklir og glás af monnípeningum til að þrátta um. Þó að vistarverur Guinnesserfingjanna séu iðulega skrautlegar og Louis Partridge augnayndi er allt í kringum viðskipti og stjórnmál 19. aldar (með þá Rafferty og búálfinn Byron í broddi fylkingar) talsvert gruggugra en jafnvel sjálft ölið. Syrpunni lýkur á ystu nöf (eða með „cliffhanger“) þegar þingframbjóðandinn Arthur verður skotmark æsts þjóðernissinna. Ég hugga mig við wikipediu og bíð spenntur næstu syrpu.

Previous
Previous

Í gildru óblíðra örlaga

Next
Next

Stríðsárabarn