Vofan gólar

Ég skrifaði einu sinni grein um svokallaða einfara sem eru í flestum tilvikum ósköp venjulegt fólk sem hefur einfaldlega takmarkaðan áhuga á að láta taka af sér myndir og birtast í blöðum og hefur fengið á sig óverðskuldaðan stimpil. Niðurstaða mín var að þetta fólk væri ekki skrítið heldur væri afþreyingarheimurinn það og fjölmiðlar og fólk sem þar vinnur sem hefur gert það eðlilegt að eltast við fólk og taka af því óumbeðnar myndir. Í greininni var ekki minnst á Kate Bush en hún á þó heima í hópnum. Meðal annars ákvað hún 22 ára að hún hefði farið í sína hinstu tónleikaferð og hefur ekki sinnt slíku síðan og sannað að það er hægt að vera vinsæll listamaður sem gerir það sem henni sýnist.

Ekki eru allir popptónlistarmenn séní en Kate Bush verður varla lýst með öðrum orðum. Hún er fyrsta konan sem komst efst á vinsældalistann í Englandi með popplagi sem hún samdi sjálf og var þá aðeins 19 ára. Lagið hét „Wuthering Heights“ og er vísun í þekkta sögu Emily Brontë (þær Kate eru báðar fæddar 30. júlí) en ljóðmælandinn er vofa og lagið er sungið af Bush með sérstakri tækni undir indverskum áhrifum sem gerir lagið óvenjulega ófyrirsegjanlegt og dramatískt. Framúrstefnuáhrif í popptónlist eru annars ekki örugg leið til vinsælda þó að stöku hittari brjóti þá reglu. Skömmu síðar var það „Babooshka“ sem kom henni ofarlega á marga vinsældalista, kynngimagnað lag um afbrýðissama konu (túlkuð af Kate sjálfri í myndbandinu ásamt risavöxnum kontrabassa) sem leggur gildru fyrir mann sinn, kannski álíka galin og ósympatísk og draugurinn í fyrra laginu. Fleiri lög í anda smásagna Svövu Jakobsdóttur fylgdu en Bush komst síðan aldrei aftur jafn hátt á vinsældalistana fyrr en árið 2022 þegar notkun á lagi hennar „Running Up That Hill“ í Stranger Things gerði hana frægari en nokkru sinni fyrr, ekki síst í Bandaríkjunum en þarlendir voru seinir að uppgötva Kate.

Í mínum heimi hefur hún alltaf verið fræg, systir mín átti plötur hennar og ég var mikill Kate Bush aðdáandi á táningsárunum — og er enn enda er hún engu lík; kannski vegna þess að hún var óhrædd að tjá geggjun draugsins Catherine og aðrar misaðlaðandi gotneskar tilfinningar og kenndir. Ekki hefur dregið úr aðdáun minni við að heyra að Kate Bush ræður sér sjálf, fer ótroðnar slóðir og lætur félagslegan þrýsting ekki troða sér í sviðsljósið eða fara í önnur ferðalög en hana langar til. Hún hefur nýtt sér það listræna frelsi sem vinsældir geta veitt og lifað af tónlist sinni alla ævi án þess að reyna að láta á sér bera en hefur samt farið í viðtöl eftir þörfum og það er alfarið rangt að hún yfirgefi ekki heimili sitt eða hegði sér ekki á allan hátt eins og venjuleg manneskja, aðeins með óvenju mikla hæfileika.

Að ofan má sjá Kate Bush dansa í öðru myndbandinu við „Wuthering Heights“; hún gerði nefnilega tvö hvort með sínum dansi enda meðal fyrstu poppara 8. áratugarins til að líta á sig sem allsherjar listamann og gefa hinu myndræna gaum. Tjáning hennar í dansi er kannski ekki minni þáttur í túlkuninni en söngurinn og hvorttveggja er tilraun hennar til að fanga heila skáldsögu í stuttu popplagi. Kate hefur alltaf samið sína tónlist sjálf og verið tæknilega sinnuð. Í raun er hún enginn einfari en sannarlega sjálfstæð og stendur á eigin fótum sem listamaður. Það sem hún bauð heiminum upp á 19 ára var sitt eigið snargeggjaða sjálf í öllu sínu veldi.

Previous
Previous

Gömul kynni við tápmikla mús

Next
Next

Ófeigir draugar