Ófeigir draugar

Það eru um 30 ár síðan kerfisbreyting varð í Háskólanum þannig að í stað þess að doktorsritgerðir væru bækur sem aldnir fræðimenn legðu fram til varnar var farið að líta á þær sem hluta námsins eða öllu heldur lokaskref og þar sem ég var einn af þeim fyrstu sem hóf slíkt doktorsnám man ég enn eftir ýmsum yfirlýsingum eldri kynslóðarinnar um að þessar nýju doktorsritgerðir yrðu augljóslega mun lakari hinum eldri enda hefðu þær verið „æviverk“ og er það raunar ekki í síðasta sinn sem ég hef heyrt mönnum talið það sérstaklega til tekna að sækjast verk sín hægt í vinnunni. Núna aldarfjórðungi síðar er unnt að líta yfir sviðið og fullyrða að hið gagnstæða er satt, almennt hafa doktorsritgerðir batnað mjög mikið frá öldinni sem leið og eru margar bæði vandaðar og efnismiklar þó að auðvitað sé ævinlega misjafn sauður í mörgu fé. Þess vegna gleðst ég sjaldan meira en þegar ég rekst á eina af þessum merku rannsóknum útgefna á bók og undrast hversu fjölbreytt efnisvalið er og gerjunina í íslenskum bókmenntarannsóknum á 21. öld sem er þó ekki alltaf hagstæð bókinni.

Þannig nældi ég mér um daginn í bókina Húsið og heilinn eftir Sigrúnu Margréti Guðmundsdóttur sem er upphaflega doktorsritgerð og fjallar um íslenskar hrollvekjur. Ég man þá tíð að það var nýjung að halda því fram að til væru íslenskar hrollvekjur og ég sjálfur var fullur tregðu og sinnti lítið þessum afkima bókmenntanna fyrr en upp úr fimmtugu að ég fór að taka hann í sátt og hef verið í eins konar óformlegu hrollvekjunámskeiði síðustu misserin. Þess vegna var ég vitaskuld mjög forvitinn að heyra hvað Sigrún hefði að segja um þetta form sem ég er í óða önn að setja mig inn í og ekki spillir fyrir að ég þóttist vita að 19. öldin kæmi mjög við sögu og rannsóknin snerist að einhverju leyti um samband mannslíkamans og hins hryllilega staðar.

Ekki olli það mér vonbrigðum að heill kafli í bókinni fjallar um Overlook-hótelið og að sjálfsögðu las ég hann með einna mestri athygli en annars eru það íslenskar bókmenntir (Steinar Bragi auðvitað!) og kvikmyndir sem eru í aðalhlutverki. Margir muna áhrifamikla gagnrýni Róberts Haraldssonar á íslenska kvikmyndafræði á fyrstu árunum þegar honum fannst ekki kafað nægileg á dýpið. Það verður Sigrún Margrét ekki sökuð um. Þetta eru allt efnismiklar og rækilegar túlkanir og sækja styrk hver til annarrar. Þó að oft njóti doktorsritgerðir sín prýðisvel í stöku greinum hér og þar í tímaritum sækir þessi mikinn styrk í bókarformið og engum blöðum er um það að fletta að hér er komið enn eitt grundvallarritið sem doktorsnám í íslenskum fræðum seinustu 30 árin hefur fætt af sér. Kannski þyrfti að endurskilgreina hugtakið „æviverk“ sem verk sem er ekki endilega unnið á heilli ævi en mun hafa mikið gildi langa ævi.

Ein mesta byltingin sem birtist í bókinni er auðvitað að koma íslenskum bókmenntaheimi í skilning um að íslenskar hrollvekjur eru sannarlega til líka þó að þær hafi verið lítt á dagskrá bókmenntafræðinga fyrri ára og íslenskt bókmenntalíf er ekkert líkt því sem það var á 8. áratugnum. Hver kynslóð eignast nýja klassík og hrollvekjur 8. áratugarins eru klassík unga fólksins þegar 21. öldin er liðin að fjórðungi.

Previous
Previous

Vofan gólar

Next
Next

Norsk Verbúð