Gömul kynni við tápmikla mús

Ég hef áður frætt íslenska netlesendur um Sid Roland sem við mörg munum eftir úr almenningsbókasöfnum Reykjavíkur á 8. áratugnum og er sú grein horfin af netinu en skal nú endursögð (án gæsalappa því að ég „stel“ frá mér sjálfum): Margir halda að Sid Roland hafi verið enskur. En það er ekki rétt. Sid og Roland eru að vísu ensk nöfn en sjálfur Sid Roland var sænskur, hét fullu nafni Sigmund Roland Rommerud og var fæddur í Husbysókn í Kopparbergsléninu þann 6. júlí 1915. En hvers vegna kannist þið við nafnið Sid Roland? Jú, hérlendis fyrir bækurnar um músina Pipp. Margir ólust upp við þaullestur á Pippbókunum.

Hinn ungi Rommerud ólst upp í Västerbotten, nánar tiltekið í Vindeln. Árið 1938 hleypti hann heimdraganum (fór á flakk, segjum við Pipp-aðdáendur, það skilst betur seinna) og hélt til Stokkhólms. Þá var hann þegar farinn að skrifa bækur sem voru gefnar út í Malmö, hjá forlaginu Skåne tryckeri. Fyrst þeirra var Skatten på sommarön, kom út árið 1933. Þá var Sigmund litli aðeins átján ára. Árið 1935 kom út bók eftir hann í Umeå. Þegar hann varð 25 ára voru bækurnar farnir að nálgast tuginn. Í Svíþjóð er Sid Roland frægastur fyrir bækur um leynilögregludrengi sem voru tvíburar, allmargar bækur sem komu út frá 1944 til 1974. Er hann hvorki fyrstur né seinastur að gera sér tvíbura að féþúfu enda tvíburar öfundaðir af mörgum. Þessar bækur skrifaði hann undir dulnefninu Sivar Ahlrud. Hann notaði líka dulnefnið Sven Rud. Af hverju notaði hann dulnefni? Ekki veit ég; kannski var það feimni. Ég kysi satt að segja sjálfur að skrifa undir dulnefni ef ég fengi það í friði. Sagt er að Sigmund eða Sid hafi verið feiminn og þögull við fyrstu kynni. Hann mun líka hafa notað dulnefnið Klimax. Ekki veit ég hvers konar rit hann samdi undir því nafni. Enn fremur skrifaði Rommerud bækur um dreng sem hét Knutte og bækur um Humpe og Stumpe en ég hef þrátt fyrir ítarlega leit ekki komist að því hverjir þeir voru. Hljóma eins og kanínur. Hann gaf einnig út hasarbækur sem hétu nöfnum eins og Revolvermysteriet, Rock´n roll-mysteriet, Mysteriet Silvertrumpeten og Lomsjöns hemlighet fyrir forlagið Wahlström. Einnig skrifaði hann ferðabækur um Afríku og tók m.a. viðtal við sjálfan Haile Selassie Eþíópíukeisara (sem eins og allir vita hét réttu nafni Ras Tafari Makonnen). Einnig skrifaði hann ferðabók frá landinu helga. Hér má sjá mynd af kauða:

Pipp litli leit dagsins ljós árið 1948. Fyrsta bókin hét Lille Pip upptäcker världen og kom út það ár en á Íslandi árið 1960 undir heitinu Pipp fer á flakk (sbr. áður). Bækurnar um Pipp urðu alls tíu. Jónína Steinþórsdóttir (1906-1998) þýddi átta þeirra á íslensku; hún var siglfirsk að uppruna, bjó þó lengst á Akureyri, var varabæjarfulltrúi fyrir Framsóknarflokkinn og einnig mikilvirkur þýðandi barnabóka úr öllum Norðurlandamálunum. Gott líf, sem sagt. Pipp fer á flakk er einna leiðinlegust þessara þýddu bóka en þar á hann m.a. í útistöðum við fugla. Hins vegar færðist strax fjör í leikinn í næstu bók, Lille Pip flyger (1949, ísl. Pipp strýkur að heiman 1961). Pipp fór í flugferð í þeirri bók og hitti músina Snældu frá Suomi og voru það fyrstu kynni margra íslenskra barna af finnska heitinu á Finnlandi. Bróðir Pipps, Filippus, kom sterkur inn í þessari bók en hann er mun settlegri, skrautmýsi mikið og mikill bræðrarígur milli þeirra Pipps. Fyrst virðist Filippus vera skúrkurinn í bókaflokknum en smám saman öðlast hann viðurkenningu og sinn hóp meðal lesenda. Í þessari bók kom einmitt fram að Pipp á frænda sem heitir Kólumbus og er skipsmús. Öðluðust þá lesendur nokkra innsýn í misjafnt hlutskipti sænskra músa. Aðalhrekkjabragð Pipps í bókinni tengist stéttskiptingu þar sem ungfrú Spörskríkja nokkur er klædd upp sem aðalsfrú og fær aukna virðingu hjá Grænstarra óðalseiganda. Margir telja Lille Pip i skolan (1950, Pipp fer í skóla 1962) lykilbók í flokknum en þar hefur Pipp nám hjá kennslukonunni ungfrú Broddlund (engin verðlaun fyrir að geta upp á dýrategundinni) og á í höggi við hinn illvíga Molla moldvörpu, nýjan höfuðandstæðing.

Molli er eins konar hrekkjusvín en Pipp snýr taflinu við með klækjum sínum og eftir því sem líður á bókaflokkinn verður Molli moldvarpa fyrir æ meiri skakkaföllum og spurningin hver sé að leggja hvern í einelti. Hvort sem það var vegna andúðar á konungsvaldi eða annars þýddi Jónína ekki næstu bók Lille Pip blir prins (1951) en þar skipta þeir Pipp og Algot prins um gervi og til þessa er mikið vísað í næstu bók Lille Pip på skolresa (1952, Pipp á skólaferðalagi 1967). Þar er haldið til höfuðborgarinnar og þeir Pipp, Filippus og óopinber kærasta Pipps, músin Snoppa, kynnast manni sem kallar sig barón von Kláði. Þegar undirritaður las bókina í æsku hvarflaði aldrei að honum að von Kláði væri kannski ekki raunverulegur barón en núna er mig farið að gruna margt. Einnig kemur við sögu stúdent nokkur og voru þetta fyrstu kynni margra íslenskra barna af þessum lærdómstitli. Hátindur bókarinnar er þegar Pipp og Filippus slá í gegn með laginu „Snodderían Snoddera“. Er þar augljóslega á ferð vísun til Gösta Nordgren (1926-1981), bandíleikarans vinsæla sem kallaður var „Snoddas“ og sló í gegn sem söngvari með laginu „Flottarkärlek“ nokkurn veginn samtíða því að bókin kom út en þar er vitaskuld viðlagið Haderían Hadera með hinu opna sænska a-i.

Lille Pip seglar ut (1953, Pipp fer á sjó 1968) er afar spennandi saga þar sem við sögu kemur m.a. sjóræninginn Brakari tréfótur. Var maður þokkalega hræddur við hann á sínum tíma! Í sögunni er einnig sögð þroskasaga Antons frænda sem hefur ófáar sjóarasögur sagt í Pippbókunum. Smám saman hafa mýs tekið að ímynda sér að hann sé aðmíráll og hann er látinn stýra skólaskipi með Pipp og félögum (þar á meðal Molla moldvörpu sem allir pönkast á sem fyrr). Anton hefur hins vegar í raun og veru aldrei verið nema matsveinn, eipar á miðri ferð og felur sig í kistu. Áhugaverð saga um muninn á „illusion og virkelighed“ sem er einmitt meginþema allra sagna Halldórs Laxness samkvæmt bókmenntafræðingnum Sønderholm. Aldrei var næsta bók í uppáhaldi hjá mér en það var Lille Pip som skattsökare (1954, Pipp leitar að fjársjóði 1969). Þar eru Molli og félagi hans, Putti, auðmýktir enn frekar eins og ekki hafi verið nóg gert að því fram að þessu. Í bókinni er raunar ágætis írónía í byrjun þar sem við sögu koma eyja Gula tréfótarins, vík Rauða tréfótarins, fjall Svarti tréfótarins og hellir Græna tréfótarins. Lille Pips jullov (1955, Pipp í jólaleyfi 1971) er meira spennandi enda fyrsta tilraun Sid Roland til að nota form vísindaskáldsögunnar í Pippbókunum en þar hverfa aðalpersónurnar niður í jörðina og lenda þar meðal Gullverja. Einn þeirra nefnist Theódór Theódórsson og sýnir Snoppu mikinn áhuga. Kemur þá afbrýðissemin upp í Pipp og Filippusi sem hafa hingað til setið einir að henni. En Pipp og félagar gorta sig svo mikið af skólanum sínum að þeir eru fengnir til að reka skóla meðal Gullverja og verða „skólastjóraungfrúr“. Virðast þeir dæmdir til eilífrar vistar neðanjarðar uns Pipp leysir málið með því að ná í platskipstjórann Anton frænda og færa Gullverjum hann. Þeir fá því að heyra allar sjóarasögur hans, foreldrar Pipps losna við þær í bili og Anton fær nýjan áheyrendahóp. Af einhverjum ástæðum þýddi Jónína aldrei Lille Pip och Robinson Krusig (1956) en þar hélt tilraunastarfsemi Sid Roland áfram og sótti hann að þessu til vinsælla 18. aldar ferðabókmennta. Meira veit ég ekki um þá bók vegna þessarar handvammar. Er það býsna algengt með barnabókahöfunda sem festast í vinsælli ritröð, þeir fara að gera stöðugar formtilraunir. Sid Roland gerði Filippus að sögumanni en áður hafði sjónarhornið jafnan fylgt Pipp. Í seinustu Pipp-bókinni Lille Pip i vilda västern (1958, Pipp í villta vestrinu 1970) gerist sögumaður latur í miðri bók og fer „að veiða aborra“ og Pipp tekur við sem sögumaður. Pipp og félagar álpast til lands indíánanna með loftbelgjum og eru þau síðan bundin við tótem. Skelfileg örlög virðast bíða þeirra en höfundur fellur sem betur fer ekki í gryfju rasismans og lætur góða indíánadrenginn Fljóta íkorna frelsa þau. Í þessari bók eru endalausar vísanir til sænsks samtímasamfélags, Molli og Putti verða æ asnalegri og meira minni máttar. Filippus verður hins vegar æ meira hetja án þess að hætta að vera stelpustrákur sem lætur sig dreyma um flauelsföt í jólagjöf þegar Pipp langar í eitthvað sem alvöru strákar vilja.

Þó að Pipp-bækurnar séu ekki flóknar var Sid Roland lunkinn við að koma lesendum á óvart og halda uppi spennunni. Persónusköpunin er líka ágætt á köflum, einkum eru Anton frændi og Filippus góðar persónur. Bækurnar um Pipp lifa enda ágætlega í minningunni hjá aðdáendum þessarar tápmiklu músar. Sid Roland lést 17. júní 1977.

Previous
Previous

Torræð ljóð og tignar konur

Next
Next

Vofan gólar