Stríðsárabarn

Ég var svo heppinn að áskotnast glæný þýðing Gyrðis Elíassonar á Barnæsku Jona Oberski nánast á útgáfudegi. Jona er ekki atvinnurithöfundur heldur kjarneðlisfræðingur, fæddur 1938. Lengi vel hafði hann aðeins skrifað eina bók, Kinderjaren (1978) sem sló í gegn um alla Evrópu en er nú loksins komin á íslensku. Eftir að sú bók var kvikmynduð sendi hann frá sér tvær skáldsögur (De ongenode gast og De eigenaar van niemandsland) og þá þriðju á gamals aldri (Strengel). Þær hafa hvergi nærri notið viðlíka hylli og Barnæska sem mun lifa sem ein allra mikilvægasta bókin um heimsstyrjöldina síðari.

Í hverju felst styrkur þessarar bókar eftir mann sem aldrei hafði gefið út bók áður? Auðvitað ekki síst í efninu. Í bernsku lifði Jona af helförina sem þó beindist gegn honum og hans fólki. Frá þessu segir hann frá barnslegu sjónarhorni í einföldum texta, studdur af eigin minningum og veruleika sem er átakanlegri en flest það sem rithöfundur gæti sagt frá. Þessi bók er algerlega texti barnsins sem Jona Oberski var einu sinni og eldri sögumaður ryðst aldrei inn. Þar með nær hann að segja frá svo tært og hreint að það myndar skelfilega þversögn við hina grugga og ógeðugu atburði sem greint er frá að einhverju leyti en voma aðallega yfir frásögninni.

Þeim mun hrikalegri sem viðburðurinn er, þeim mun einfaldari getur frásögnin leyft sér að vera. Þennan galdur kann Oberski og það er einkennilega viðeigandi að finna ekki upp á neinu þegar reynslan er allt. Að þessu leyti var hann samt framsýnn, listræn sjálfssöguritun í módernískum stíl varla hafin og virðist manni að Oberski hafi haft óvenju skýra sýn á verkefnið sem gengur út á að vera staddur í nútímanum sem lýst er. Sögunni lýkur eftir stríð en alls ekki í neinni gleði. Hann neitar okkur líka um þá hreinsun og ekki annað hægt en að hrífast af þessum sterka vilja og frumlegri nálgun. Í stuttu máli verðskuldar Barnæska allar sínar miklu vinsældir og er tímabær á Íslandi sem óðum er að festast í frekar leiðinlegri flokkun í okkur og hin.

Previous
Previous

Ölerfingjarnir

Next
Next

Varasöm útþurrkun sjálfsins