Varasöm útþurrkun sjálfsins

Í vor lenti ég óvænt á klukkutíma spjalli í Sundhöll Reykjavíkur við 19 ára Slóvena, háan, grannan og skarpleitan með raðmorðingjaaugui. Þó að hann reyndist óvænt vinsamlegur við frekari kynni man ég það helst eftir spjall okkar að honum fannst að almenn herskylda væri góð hugmynd sem ég skildi ekki alveg, verandi vel handan hennar sjálfur. En kannski var það hans vegna sem ég horfði á Boots á Netflix, sjónvarpsþátt byggðan á minningum hermanns að nafni Greg Cope White um veru sínu í hernum um 1990 meðan hann var þar ólöglegur vegna öfughneigðar. Hann er kallaður Cameron Cope í þáttunum, er veikbyggður strákur, lagður í grimmilegt einelti og er algerlega úr tengslum við fjölskyldu sína — einkum mömmuna sem er lygasjúk, hlustar ekki og hefur lítinn áhuga á syni sínum. Þessi kvalda sál á aðeins einn vin í sínu borgaralega lífi, Ray að nafni, og fylgir honum í herinn í bríaríi en fær menningarsjokk strax á fyrsta degi við óp og öskur og almennan dónaskap liðþjálfanna. Aftur á móti reynist þátturinn vera svört (eða kannski grá) kómedía frekar en harmleikur og það ótrúlega gerist er að litla prinsessan finnur sjálfan sig í ameríska hernum, sennilega eins og Slóveninn minn hefði gert með ívið minni fyrirhöfn, ekki síst fyrir allt það „male bonding“ sem þar fer fram. Enda kemur í ljós að það er ekki hann einn sem er í felum heldur þeir allir, líka hinn hálfasíski Ray sem er upp á kvenhöndina en á samt sín erfiðu leyndarmál.

Í Boots snýst herinn um aga, bræðralag, röð, reglu og hreinlæti. Þrátt fyrir alla hörkuna, grófyrðin og skammirnar býr stofnunin að lokum til betri, sterkari og sannari menn úr ungmennunum. Örugglega hefði mátt semja svipaðan þátt um sovéska eða kínverska herinn eða jafnvel Mossad. Í sjálfu sér er ég hlynntur aga, bræðralagi og öllu hinu jafnvel þó að hinn raunverulegi tilgangur fyrirbærisins sé rasísk heimsvaldastefna, yfirgangur, morð og illvirki en ekki kenni ég hinum staka ameríska hermanni um allt sem heimsveldið hefur á samviskunni þó að ég geti ekki hunsað það alveg. En þetta er sem sagt þroskasaga pilts sem hefur verið skilgreindur af sjálfum sér og öllum öðrum sem minnimáttar og öðruvísi en finnur sig smám saman í aganum og bræðralaginu, kannski skiljanlega vegna þess að miðað við þáttinn er ameríski herinn hómóerótísk veisla full af fáklæddum glæsilegum mönnum sem aðalpersónan Cameron er stöðugt að góna flóttalega á uns hann finnur þann sem höfðar mest til hans. Ekki lýkur þó þættinum á neinu ástarsambandi (þó að við séum látin halda það í 7. þætti) þar sem „male bonding“ er það sem hann snýst um.

Það sem er gott við þáttinn er fyrst og fremst Kentuckyborni leikarinn Miles Heizer sem fer með aðalhlutverkið af mikilli hind, eiginlega tvö hlutverk því að nýliðinn í hernum talar reglulega við alterego sitt, þann Cope sem er ekki í felum, skammast sín alls ekki en skammar yfirsjálfið reglulega fyrir kjarkleysi og er fullur af því sem Ameríkanar kalla „sass“ á meðan sá Cope sem er fastur í hernum er lítil hrædd mús. Þannig er Cope sjálfur sinn eigin harðasti gagnrýnandi. Heizer var áður í þættinum 13 Reasons Why sem ég gafst upp á vegna fórnarlambablætisins í honum. Ég man hann líka úr myndinni um fangelsistilraun Zimbardos þar sem hann var í algeru aukahlutverki en Heizer hefur alltaf haft „presens“ og maður tekur eftir honum. Boots heldur hann alveg uppi með síhrædda augnaráðinu (nokkur dæmi á myndunum hér). Hin aðalpersónan í þáttunum er harði og vel þjálfaði liðþjálfinn Sullivan, leikinn af hinum bláeyga Max Parker, sem er með álíka stingandi augnaráð og slóvenski vinur minn. Mig grunaði strax að hann væri ef til vill að leyna því sama og Cope undir óbrotgjarnri hörkunni og það reyndist vera raunin. Sullivan er höfuðandstæðingur og hnoss (object) þáttanna; einkum eftir að hrifning Cope á honum vex. Honum virðist í fyrstu vera uppsigað við söguhetjuna en mig grunaði snemma að það væri dulin ástartjáning frá föðurímynd til sonarímyndar og það kemur enda upp úr dúrnum; eins er svarti liðþjálfinn sérlega harður við hinn metnaðarfulla svarta Nash.

Aukapersónurnar eru dregnar skýrum dráttum en eru líkar innbyrðis einkum eftir að þeir hafa allir verið snoðaðir í upphafi og það væri erfitt að hugsa sér þáttinn án Heizers þannig að vonandi verður ekki reynt að gera endalausa þáttaröð á við M*A*S*H án hans. Þar á meðal eru bræður þar sem annar leggur hinn í endalaust einelti vegna fitu. Hinn væni asíski vinur, Cope, Ray, er líka vel skrifuð persóna í eilífri klemmu milli vináttunnar við Cope og þarfarinnar til að þóknast yfirmönnunum og föður sínum (sem hann kallar „sir“ eins og liðþjálfann). Annað hermannsefnið er Nash sem í upphafi virðist veikur fyrir Cope þó að ekkert komi út úr því; hann lendir svo í klemmu fyrir að hafa verið fyndinn og illgjarn í orði um félaga sína — ég samdi svipaða revíu um bekkjarfélaga mína 10 ára og skil skömm hans. Liðþjálfinn Howitt er fremur einhliða persóna og fremur spaugilegur en hræðilegur. Einn af nýliðunum er giftur (og konan reynist auðvitað halda framhjá), annar er dæmigerð bulla sem hinir þurfa að læra að umgangast og einn virðist hreinlega vera svolítið klikkaður (og heldur m.a. snák sem gæludýr). Nýliðinn Jones birtist í 6. þætti og kemur öllu á hreyfingu þar sem hann sér í gegnum Cope og vill gjarnan kynnast honum betur. Það sem maður bíður spenntastur eftir er þó hvernig samband Cope og liðþjálfans þróast. Milli Miles Heizer og Max Parker er vel heppnuð erótísk spenna enda leikararnir báðir þeim megin í raun.

Sannarlega þurfa nýliðarnir ungu í þáttunum að erfiða meira en nemendur mínir í Háskólanum við öllu stríðara viðmót kennara sinna. Það er mikið klifrað og öskrað og hlaupið og bitist í þessum þáttum, næstum óþægilega fyrir okkur sem látum 30 mínútur á viku í líkamsrækt duga. Mikil leðja og eðja setur svip sinn á þá því að greinilega er mikilvægt að hermenn séu ekki of viðkvæmir fyrir drullunni þó að aðalpersónan treysti sér ekki á klósettið vikum saman vegna þess að hann er svo hræddur við að skíta opinberlega (klósettin þarna eru opin eins og pissuskálar) en vinnur fyrir vikið frekar lágkúrulega keppni um stærsta kúkinn. Þetta þykir kannski ótrúverðugt en einum vini mínum var eins farið í sumarbúðum á 9. áratugnum; „sviðsskrekkur“ getur haft þessi áhrif á meltinguna. Salernishúmorinn er þó ekki alveg svipaður og í Police Academy forðum; þessi þáttur er greindarlegri að öllu leyti og meðal annars er þar enginn eiginlegur skúrkur frekar en í alvarlegum kvikmyndum yfirleitt.

Sullivan heldur ræðu yfir Cope um að allir hafi sínar byrðar að bera og það sé mikilvægt að eyða sínu gamla sjálfi svo að hið nýja sem herinn skapaði blómstri. Þetta er þegar kærleikurinn milli þeirra er farinn að koma í ljós og ég var ekki viss um nema þetta væri boðskapur þáttanna uns alterego Cope fór að draga það í efa. Jones kemur síðan og segir Cope að þetta sé allt leikrit. Eftir alla hörkuna og hrekkina og skammirnar stendur upp úr hve góðir nýliðarnir eru hver við annan og sýna hver öðrum iðulega kærleik sem er dulinn af yfirborðsgrimmd. Samkvæmt þessum þætti er herinn góður staður sem reynist vel jafnvel þeim sem eru svo öðruvísi að það er eiginlega bannað. Boots er sannarlega engin Full Metal Jacket þó að hún vísi stundum í hana.

Previous
Previous

Stríðsárabarn

Next
Next

Þegar ég tala við danska menntaskólakrakka