Tröllsleg taugaveiklun

Hitchcock-kvikmyndin Spellbound var sýnd á SVT á seinasta degi ársins 2024 undir heitinu Trollbunden sem höfðaði að sjálfsögðu til mín. Þegar Ríkisútvarpið var og hét sýndi það kvikmyndir strax eftir áramót og ein sú fyrsta var „High Anxiety“, sýnd í ársbyrjun 1985 og fjölskyldan öll skemmti sér stórvel yfir dr. Thorndyke, Victoriu Brisbane, nurse Diesel og professor Lillolman. Spellbound var ein þeirra Hitchcock-kvikmynda sem var tekin fyrir í myndinni og síðan sáum við hana líka; eins og þeir vita sem fylgjast með síðunni hef ég nú séð allan Hitchcock a.m.k. frá 1934. Ingrid Bergman er hér í aðalhlutverki – en ég á enn í skáp endurminningar hennar Mitt liv (1980) sem Vigdís Finnbogadóttir gaf mér – og gefur það myndinni vitaskuld aukið gildi þar sem Bergman er á svipuðum stað hjá mér og Greta Garbo. Gregory Peck er í hinu aðalhlutverkinu og leikur mann sem gæti bæði verið geðlæknir eða sjúklingur. Meðal annarra sjúklinga er leikarinn Norman Lloyd sem reyndar varð 106 ára gamall en aðeins þrítugur á þessum tíma og þó ekkert sérstaklega unglegur. Síðan sést Leo G. Carroll sem aðdáendur Rocky Horror Picture Show kannast við nafnið á og reynist vera skúrkurinn í myndinni.

Spellbound snýst um sálgreiningu, tískuvísindi 20. aldar sem jafnframt var mikið hæðst að en enginn efast lengur um að eigi sér ákveðna stoð. Hitchcock var mjög áhugasamur um sálgreiningu og rannsóknir Freuds þó að hann væri enginn lærisveinn föður sálfræðinnar. Í myndinni kemur þó ekki síst fram áhuga á formum og mynstrum og Salvador Dali var fenginn til að búa til draumsenuna fyrir miðri mynd þar sem persóna Gregory Peck glímir við eigin sekt eða sakleysi. Meginþemað er minnisleysi sem var vinsælt í spennumyndum um miðja öldina og m.a. skilst mér að amma heitin hafi haft sérstaka ánægju af spennusögum þar sem minnisleysi var mikilvægt minni (já, þetta var með ráðum gert). Vandamálið er raunverulegt þó að það sé sennilega ívið meira áberandi í spennusögum en raunveruleikanum.

Áður hefur Peck birst á geðsjúkrahúsinu þar sem Ingrid Bergman vinnur og þóst vera nýr yfirlæknir að nafni Anthony Edwardes en fer fljótlega að hegða sér undarlega og síðan uppgötvar Bergman á dramatískan hátt að undirskrift hans er ekki sú sama og læknsisins sem hann er að leika.

Peck er semsé svikahrappur, maður sem stelur lífi annars manns en slíkir menn voru vinsælt söguefni áður en fingraför og dna komu til sögu. Meðal annars var mikill fjöldi falskra prinsa sem þóttust vera konungssynir sem höfðu dáið óvænt á unga aldri. Hver kannast ekki við Arnaud du Tilh, Perkin Warbeck, falska Dmitri, falska Oluf og Púgasjeff? En þar sem persóna Ingrid, dr. Peterson, er orðin ástfangin af svikaranum vill hún ekki lengur afhjúpa hrappinn heldur hjálpa honum og leggur af stað í leiðangur að finna manninn á undan öðrum. Þegar hún finnur hinn óþekkta á hóteli þar sem hann gengur undir nafninu „John Brown“ segist hún ekki komin hingað vegna ástar en í kjölfarið kyssast þau ástríðufullt.

Síðan er parið stöðugt á flótta undan réttvísinni sem er algengt frásagnarminni Hitchcock-kvikmynda og venjulega fólkið sem er aukapersónur myndarinnar er stöðugt að bera kennsl á Bergman og Peck á flóttanum. Að lokum eignast þau bandamann í hinum sérvitra dr. Brulov (fyrirmynd Prof. Lillolman hjá Mel Brooks) sem var kennari hennar og talar með sterkum austur-evrópskum hreim. Hann er rödd skynseminnar og eiga þau Bergman áhugaverð samtöl um skynsemi og tilfinningar eftir að sá gamli hefur mætt ókunna manninum með rakhníf í hendi í senu þar sem myndavélarauga Hitchocks fær aldeilis að njóta sín (sjá að neðan). Það er einmitt hjá honum sem hinn dularfulli sjúklingur dreymir sinn dularfulla súrrealíska draum í anda Dali.

Spellbound er gott dæmi um það hvernig fræðilegar hugmyndir sem komast á flug geta auðgað listaverk síns tíma. Þessi kvikmynd væri óhugsandi án tilurðar sálgreiningarinnar og Freud er aflgjafi hennar þó að það sé myndavélarauga Hitchcocks sem gerir listaverkið. Um meistarann sjálfan hef ég nú ritað meira í þetta rit sem kom út 2023. Hann og Tolkien eru sennilega bestu dæmin um snjalla listamenn sem nutu alþýðuhylli án þess að gefa minnsta afslátt og verðskulda alla okkar virðingu.

Previous
Previous

Ismay var ekkert fól

Next
Next

Draugur og drembnir fræðimenn