Kirk hleypur á árunum

Kvikmyndin Vikings (1958) var frumsýnd á Íslandi sumarið 1959 og var auglýst sem heimsfræg litmynd með frægum leikurum en hvergi kom fram að þessi mynd eða víkingar yfirleitt kæmu Íslendingum sérstaklega við enda var það ekki fyrr en löngu síðar að Jón Páll heitinn fór að kalla sig „viking“ í ensku merkingunni ‘norrænn maður’ [„not an eskimo“ sagði hann líka en kannski viljum við síður muna það). Kvikmyndin hefst enda á teiknuðum myndum sem gætu verið af Bayeuxreflinum og leturgerðin líka. Fyrstu persónurnar sem við sjáum eru síðan Ella konungur og hirð hans í Englandi og þar erum við kynnt fyrir þeirri fléttu að ekkjudrottningin er ólétt eftir víkingakonunginn Ragnar. Sjálfa víkingana nálgumst við þannig utan frá, frá ensku sjónarhorni. Það er regla fremur en undantekning, líka í alþjóðlegri fræðimennsku.

Frægasta atriði kvikmyndarinnar er þegar víkingurinn Einar hleypur á árum víkingaskips síns (sjá að ofan) sem siglir inn í fjörðinn að lokinni erfiðri ferð. Kirk Douglas heimtaði að gera þetta sjálfur enda var hann ekki aðeins stjarna myndarinnar heldur líka framleiðandi og græddi á henni stórfé sem honum veitti ekki af á þeim tíma. Kirk var bláfátækur innflytjendasonur og hinir grimmu og blóðþyrstu víkingar eru ekki aðeins fulltrúar villimennskunnar heldur líka allra hinna framandlegu og annarlegu, þar með rússneskra gyðinga eins og Kirk sjálfs. Ólík mörgum öðrum Hollywoodstjörnum þess tíma var Kirk til skiptis hetja eða skúrkur eða hvorttveggja í senn eins og í þessari mynd þar sem hann er yfirlýstur höfuðandstæðingur en þó hlýtur maður að halda með Kirk sem getur ekki aðeins hoppað og skoppað á árum (hvaðan sem það kom) heldur klifrar upp kastalaveggi eins og maður sem gæti auðveldlega orðið 103 ára að lokum milli þess sem hann glottir skelmislega og hvæsir kynþokkafullt að aðalkvenhetjunni sem Janet Leigh leikur og af óskiljanlegum ástæðum velur samt dökka þrælinn sem Tony Curtis leikur fram yfir Kirk.

Víkingaprinsinn Einar er sonur höfðingjans Ragnars sem Ernest Borgnine leikur en í raun var Ernest yngri en Kirk. Þetta voru helstu stórmynda- og óskarsverðlaunaleikarar þess tíma sem segir sína sögu um hvers konar stórmynd The Vikings. Ragnar þessi er kannski innblásinn að hluta af hinum goðsagnakennda 9. aldar manni Ragnari loðbrók og er a.m.k. drepinn af Ellu konungi með því að vera kastað ofan í pytt fullan af hættulegum dýrum, ekki ósvipað fyrirmyndinni. Þó að við séum kynnt fyrir sérstakri grimmd víkinganna (sem á að vera nánast heimsmet samkvæmt upphafstexta myndarinnar sem Orson Welles les mikilúðlega) eru Einar og Ragnar í raun ekkert grimmari en Ella konungur og aðrir Englendingar. Líkt og í Spartacus sem Kirk gerði eftir að hafa æft sig á víkingunum er samúðin kannski lævíslega með hinum villimannslegu og annarlegu norrænu mönnum sem nota meðal annars axarvarp til að skera úr um sekt eða sakleysi kvenna sem eru sakaðar um hórdóm.

Lokaeinvígið er milli hins eineygða Einars og hins einhenta Eiríks (Dumezil hefði sannarlega fílað þetta) og Eiríkur (Tony) sigrar Einar (Kirk) en aðallega vegna þess að hinn illi víkingur vill hvorki bana hálfbróður sínum né lifa án ástar Morgönu (Janet) og líkt og Karate Kid lýkur myndinni strax eftir klimaxið því að án Kirks er auðvitað engin saga. Myndin reynist þá vera um hann en ekki góða fólkið. Hann er kannski víkingur en í raun er hann Spartakus eða hann sjálfur sem svalt í æsku en varð að lokum heimsfrægur leikari og 103 ára.

„Víkingaöldin“ er enskt hugtak og það er einkum frá ensku sjónarhorni sem víkingar eru norrænir því að Íslendingar notuðu orðið „víkingur“ öldum saman um sjóræningja, þess vegna afríska eða múslíma (eitt dæmi um það síðarnefnda er í Morkinskinnu, riti sem ég þekki dável). Jafnvel árið 1959 tók landinn þessari mynd alls ekki persónulega og hefði síst átt á því von að þjóðin myndi löngu síðar kjósa að auglýsa sig með svokölluðu „víkingaklappi“ (og síðan raunar ungversku óperettulagi) því að fram á seinustu áratugi hafði víkingahugtakið lítið að gera með þjóðerni í huga Íslendinga.

Next
Next

Forn ferðaþáttahöfundur