Asíuást Artauds

Antonin Artaud (1896–1948) var líkt og margir aðrir merkir fræðihöfundar og listamenn ekki þekktur fyrir skrif sín meðan hann lifði og allra síst utan heimalandsins þannig að það kom í hlut hins eitursnjalla Peter Brook (1925–2022) að vera honum það sem Mendelssohn var Bach á 6. áratug síðustu aldar og allt frá dögum Brook hefur Artaud og hugmyndir hans verið lifandi þáttur í vestræna leikhúsinu. Nú hefur sá frjói leikhúsfræðingur Trausti Ólafsson komið honum á íslensku og er það gleðiefni fyrir lista- og fræðaheiminn. Le thèâtre et son double hefur sannarlega engin einkenni ritrýndra fræðirit fremur en ýmis merkustu rit hugvísindanna á öldinni sem leið. Þetta er sópdyngja smærri skrifa af fjölbreyttu tagi, þau eru iðulega afar huglæg og stundum myrk þannig að full ástæða er til að hneigja sig fyrir þýðandanum.

Artaud var einn þeirra snillinga sem missti vitið að lokum en jafnvel með fullu viti hafði hann óbeit á vestrænni rökhyggju og hinum apollóníska hluta menningarinnar eins og Nietzsche hefði kallað það. Aftur á móti var hann hugfanginn af asísku leikhúsi og leikflokkur frá Balí sem sótti París heim árið 1931 varð honum opinberun og innblástur verksins. Barátta hans er ekki síst gegn aðskilnaði lífs og listar og að einhverju leyti orðsins og hreyfingarinnar. Að lokum setur hann fram manifesto um leikhús grimmdarinnar þar sem hann skorar fortíðina, meistarana og eiginlega allt vestrænt samfélag og hefðir þess á hólm. Eðlilega féllu hans róttæku hugmyndir ekki í þetta leiðinda einsleita kram sem alltaf mótar ríkjandi aðila í listalífinu en síðar rataði hann til sinna og nú að lokum beint til Íslendinga sem vonandi nota tækifærið til að kynnast þessum óvenjulega hugsuði.

Next
Next

Ágústínus kirkjufaðir og Jón Indíafari