Enginn tími fyrir hatur
Eins og menningarsinnað fólk á Íslandi veit hef ég verið að kynna mér verk meistarans Akira Kurosawa og þó að mig minnti í fyrstu að ég hefði áður séð Ikiru var ég ekki viss og ákvað að láta hana njóta efans sem var eins gott því að ég reyndist ekki hafa séð myndina en þekkti aðeins fléttuna af afspurn. Ikiru er sem kunnugt er innblásin af Dauða Ivans eftir Tolstoj og var ein af fyrstu kvikmyndum Kurosawa til að slá verulega í gegn utan Japans. Hún var nýlega endurgerð í Bretlandi og var sú nýja ágæt en þó er allur munur á þeirri mynd og frumgerðinni einkum vegna þess að eins og ég hef sennilega sagt allt of oft á þessari síðu er Kurosawa listmálari hvíta tjaldsins. Aldrei hefur fundist hans jafnoki í nýtingu rammans og í Ikiru sést vel hvílíkt dálæti hann hefur á japönskum andlitum.
Myndin skiptist eiginlega í þrennt. Í upphafi er okkur sýnd opinbera skrifstofan þar sem herra Watanabe vinnur. Þangað leitar almenningur og er þeytt milli skrifborða og stofnana á meðan Watanabe stimplar af miklum móð. Allt er hér formlegt og settlegt og stöðug vinna í gangi en engin afköst. Uns herra Watanabe sem aldrei hefur misst dag úr vinnu fer til læknis og eftir að hafa áður verið upplýstur um dulmál læknanna af skemmtilega áleitnum sjúklingi áttar hann sig á að hann sjálfur muni nú eiga skammt eftir. Hann langar að segja syni sínum frá þessu en þeir feðgar hafa fjarlægst og eru ófærir um að tala saman. Þannig að herra Watanabe stendur einn andspænis ginnungagapi dauðans fullkomlega ráðalaus og áttar sig á þeim grimma sannleik að líf hans hefur verið merkingarlaust og til einskis.
Þá hefst þáttur tvö þar sem herra Watanabe fer á blindafyllerí og sígur ofan í helvíti stóðlífsins með aðstoð rithöfundar eins sem hann fór á trúnó við á bar einum. Sá er stórskemmtileg persóna og afar bóhemalega klæddur í eina mikla slá og svartan hött (sjá efstu myndina). Herra Watanabe slær í gegn með söng sínum á laginu Gondola no uta (ゴンドラの唄) sem fjallar einmitt um hverfulleik mannlífsins. Að lokum er þetta einum of mikið fyrir Watanabe greyið og í staðinn notar hann tækifærið þegar ung og fjörleg stúlka af skrifstofunni nálgast hann í leit að undirskrift og þá hefst hálfgert „Pretty Woman“ ævintýri þar sem hann leitar lífsfyllingar í návist hennar. Sonurinn og kona hans halda að grái fiðringurinn hafi gripið þann gamla og eins bróðirinn sem er einn af þessum mönnum sem sér kynlíf alstaðar en í raun er hinn feigi embættismaður að reyna að nærast á lífsgleði stúlkunnar sem henni finnst að lokum (réttilega) heldur „krípí“ og þá finnur hann upp á nýrri leið til að lifa.
Síðasti þáttur myndarinnar felur í sér óvæntan snúning þar sem kollegar hins látna verða æ fyllri í erfidrykkju herra Watanabe og reyna að púsla saman óvæntum hamskiptum hans seinustu vikurnar þar sem hinn látni lagði mikið á sig við að útvega börnum leikvöll þar sem hann deyr að lokum sjálfur. Með aðstoð saki-brennivíns hrífast þeir að lokum allir sem einn af þessum fögru endalokum hans og ákveða að venda sjálfir kvæði í kross en myndinni lýkur á skrifstofunni þar sem fögur fyrirheit hinna hífuðu eru gleymd og allt er við það sama.
Þetta er einföld saga líkt og eddukvæðin en glímir líkt og þau við lykilspurningar. Það sem gerir þó myndina snjalla er aðallega ólínulegur frásagnarháttur Kurosawa og hið næma myndauga hans. Þess vegna er eiginlega ekki hægt að endurgera hana því að enginn annar gæti fengið jafn mikið úr efninu. Takashi Shimura er eftirminnilegur í hlutverki herra Watanabe, hann var aðeins 46 ára á þessum tíma en afar sannfærandi í gervi aldraðs og deyjandi manns. Næst á eftir honum eru sonurinn, sjúklingurinn og höfundurinn eftirminnilegustu persónurnar en eru allir á sviðinu skamma stund.