Þegar ég tala við danska menntaskólakrakka
Ég hef nokkrum sinnum fengið boð um að ræða við danska menntaskólakrakka um íslenskar bókmenntir fyrri alda og tek því ævinlega með fögnuði þar sem ég hef alltaf saknað þess smávegis að hafa ekki ílenst í Danmörku haustið 1998 og nota síðan hvert tækifæri til að tala dönsku þó að það sé vissulega áskorun að ræða fornbókmenntir á erlendu tungumáli í 75 mínútur við innfædda. Raunar hjálpar til að danskir menntaskólanemar eru mun fremri Íslendingum á flestum aldri og því fara 60 af þessum mínútum iðulega í að svara greindarlegum og vel mótuðum spurningum þeirra. Ég undirbý mig aldrei öðruvísi en að lesa grein Einars Ólafs Sveinssonar um Íslendingasögur til að rifja um danska fornsagnaorðaforðann en í þeirri grein eru raunar margar óborganlegar lýsingar, einkum þegar Einar Ólafur fer að hrauna yfir „unglegu Íslendingasögurnar“ af svipaðri ákefð og þegar Gissur heitinn Þorvaldsson gekk frá Sturlu Sighvatssyni í Örlygsstaðabardaga.
Þó að ég viti raunar ekkert um það ætla ég samt að gefa mér að fáeinir lesendur þessarar síðu hafi áhuga á því hvað ég segi þessum ungum Dönum. Vitaskuld er það margt og mikið og fer eftir þeirra spurningum og áhugamálum. Haustið 2025 spurðu þau mikið um heimildagildi sagnanna og raunveruleikann á bak við, vonandi frekar af almennum áhuga en að þau séu komin „korter í Miðflokk“ eins og það heitir í minni fjölskyldu og á því miður um íslensku ungu kynslóðina að verulegu leyti. En ég kom meðal annars á framfæri nýlegum rannsóknum mínum á víkingahugtakinu og hvernig Íslendingar skilgreindu sig alls ekki út frá því um 1960. Auk heldur gat ég bent á að þróun íslenskunnar á 19. öld í átt að fyrnsku benti til að miðaldamenningin og aðallega Íslendingasögur hafi haft lítil áhrif á forfeður okkar um 1800 þó að margir haldi annað. Eins afgreiddi ég að vanda goðsögnina um að íslensk tunga hafi lítið breyst frá því á 13. öld. Ég sagði glannalega frá hugmyndum mínum um að sumar fremstu fornsögurnar séu frá ensku öldinni og veitti þeim innsýn í gerspillta handritasöfnun Árna og um leið stórubólu. Eðlilega ber handritamálið alltaf á góma en um það vita dönsk ungmenni frá Gentofte fædd eftir 2000 ekkert. Ég nefni við þau að pyntingalýsingar Hrafnkels sögu séu undantekning á ídealíseruðum vígaferlum flestra sagnanna en um það ræddi ég í einni minni fyrstu prentuðu grein.
2025-Danirnir spurðu talsvert um tröll og þjóðsögur og afstöðu til yfirnáttúrunnar enda nýbúin að horfa á The Northman. Einn greindarlegur gaur spurði um Snorra og þá gat ég komið því að ef við hefðum ekki Snorra en aðeins Íslendingasögur hefðum við allt aðra mynd af heiðinni trú og það gæti bent til þess að lýsing Snorra væri ekki sú eina rétta. Ég benti þeim einnig á að þó að í ýmsum sögum væri sögulegur kjarni þá væri margt tilbúið og yngra. Þannig benti margt til að líffræðileg vera sem hét Egill Skalla-Grímsson hefði verið til á Borg á Mýrum á 10. öld en sá Egill sem við hittum fyrir í sögu hans væri samt aðallega texti og hugsanlega tilbúningur bæði höfundar og eldri hefðar. Þetta er ansi mikill fróðleikur en alls spurðu um 20 Danir mig að einhverju og flest þeirra virtust langt frá því að sofna í lokin. Ég gef mér að Gentoftekrakkar séu almennt vel gefnir enda ríkt menntamannahverfi sem kýs til hægri (þar á meðal stundum krata). Þó var ég óhræddur við að ræða rasisma í fræðunum og gat bent þeim á að íslenskir rasistar sýndu fornritum okkar almennt sáralítinn áhuga og kæmu ekki til mín í námskeið. Megi sú staða vara sem lengst. Raunar er ég ekki á þeirri skoðun að helsta hlutverk háskólakennara sé að berjast gegn fordómum í heiminum nema óbeint með því að kenna fólki að hugsa. Ekki af því að það væri ekki verðugt verkefni en ekkert bendir þó til að það fólk sem er ráðið til háskólakennslu sé eitthvað betur fallið en aðrir til þess. Ég er þannig ekki jafn fullur af gorgeir og sumir háskólakennarar í hinum vestræna heimi sem reglulega senda frá sér yfirlýsingar um hið einstaka hlutverk háskólakennarans að sproksetja hinn ófullkomna heim. Að lokum bendi ég þeim aðspurður um íslenska þjóðtrú á að flest þjóðtrú 19. aldar sé löngu horfin en í staðinn höfum við tekið upp borgaralegar goðsagnir af ýmsu tagi (sem iðulega er miðlað í fréttum). Ef ég hef tíma lýk ég máli mínu á að ræða álfatrú Íslendinga og síendurteknar erlendar fréttir um hana en ég á enn eftir að halda hið frábæra erindi sem ég samdi einu sinni eftirfarandi lýsingu á.
Vegna mikillar þátttöku þessara krakka (sem eflaust var rækilega undirbúin af kennurum þeirra) kem ég alltaf glaðari og bjartsýnni frá fundum okkar og stoltur af mínum danska uppruna en langalangafi minn flutti þaðan til Íslands á 6. áratug 19. aldar, eftir að forfeður hans voru komnir til baka frá Gdansk.