René Clair í Hollywood

Eins og allir lesendur vita er ég sérfróður um Agöthu Christie, enn ósigraður í Agötuflokknum á Quizup eftir nokkur hundruð viðureignir, stöðugt með bók í smíðum um hana, og þegar SVT sýndi kvikmyndina And Then There Were None (1945) um daginn gladdist ég að vonum. Myndina hef ég aldrei séð en henni er leikstýrt af franska kvikmyndaleikstjóranum René Clair (1898-1981) þegar hann var í útlegð í Bandaríkjunum í stríðinu. Sagan er meðal betri verka Agöthu en því miður hafa flestar kvikmyndir gerðar eftir henni verið hinn versti hroði. Undantekningin er tiltölulega nýlegur sjónvarpsþáttur með Sam Neill og fleirum og síðan svarthvíta myndin frá 1945. Þar er fjöldi úrvalsleikara í öllum hlutverkum, verðlaunaleikarar eins og Barry Fitzgerald, Walter Huston, Judith Anderson, Mischa Auer og Roland Young. Flestar persónurnar (en ekki allar) heita svipuðum nöfnum og í bókinni en er þó hnikað lítillega til. Eins eru tvær þeirra látnar vera saklausar og sleppa því lífs í lokin en upphaflega skáldsagan veitti enga slíka útgönguleið. Að öðru leyti er söguþræðinum fylgt rækilega, m.a. helsta blekkingarskrefi morðingjans.

Það verður að segjast eins og er að film noir stíllinn hentar sögu Agötu vel. Mikið er af nálægum skotum á persónurnar þar sem haganlega er farið með ljós (iðulega kertaljós) og skugga. Eins einkennist þessi mynd at talsverðum léttleika og kómík á kostnað morðingjanna sem jafnframt eru fórnarlömb og eru í paranoju sinni að leita hver annars. Sem kunnugt er snýst fléttan um að tíu manneskjum er stefnt á eyju og þar eru þær sakaðar um morð. Í kjölfarið fara þær að týna tölunni með talsverðum látum og þeir sem eftir standa eru fangar ofsóknaræðisins í leit sinni að morðingjanum. Enginn sími er á eyjunni, enginn bátur, þau öll ókunn hvort öðru og þar sem þau vita ekki hver andstæðingurinn er liggja allir undir grun nema þeir sem þegar hafa fallið fyrir hendi morðingjans. Andrúmsloftið er rafmagnað og þá eru reglulegar eldingar eins og til áréttingar þegar persóna bendir á eitthvað sláandi. Fum og fát einkennir tíumenningana sem eru ráðalausir andspænis hættunni og sagan því hálfgerð skoðun á veiklyndu og tortryggnu mannfólki sem brotnar niður á erfiðum augnablikum en á margvíslegan hátt.

Tvær seinustu persónurnar sem dóu í bókinni voru þær sem þóttu einna sekastar en á þetta hefur Clair og handritshöfundi hans Nichols ekki litist þannig að þau eru í staðinn söguhetjurnar og lifa af. Aukapersónurnar stela hins vegar senunni. Barry Fitzgerald var á sínum tíma mjög frægur leikari í Hollywood og var á hátindi sínum þegar myndin er gerð. Hann var írskur og John Ford fékk hann til Bandaríkjanna um fimmtugt þar sem hann ílentist við að leika fulla írska presta og önnur hlutverk af því tagi og ef ég man rétt er hann annar tveggja írskfæddra sem fékk óskarinn á undan Cillian Murphy. Hann var ógiftur og drakk sennilega mikið en annars veit ég glettilega lítið um hann. Hann ber af í þessari Agötumynd ásamt Walter Huston sem var raunar Kanadamaður en þó uppalinn sem leikari í Bandaríkjunum, fyrst á Broadway en á efri árum í Hollywood og sonur hans var vitaskuld sá frægi John Huston sem gerði á gamals aldri bíómyndina The Dead eftir sögu Joyce, eina bestu mynd sem ég hef séð. Þriðja gamanhlutverkið er í höndum Roland Young sem var líka mjög frægur í Hollywood á sínum tíma, enskur leikari en sló í gegn í gamansömum aukahlutverkum. Judith Anderson sem lék í Rebeccu leikur piparjúnkuna; hún kom til Bandaríkjanna frá Ástralíu og lék einkum á sviði en eftirminnilega í nokkrum bíómyndum. Á sínum tíma var hún yfirleitt skilgreind sem skúrkur í myndum en yngri kynslóðin sem nú er uppi hefur talsverða samúð með persónunum sem hún lék, m.a. ráðskonunni í Rebeccu.

Þó að þetta sé Hollywood-mynd er húmorinn í henni mjög franskur og undir farsaáhrifum, sviðið einfalt og persónur á ferð og flugi til og frá. Brandararnir eru ekki yfirkeyrðir og kannski þarf ekki að koma á óvart að myndin fékk verðlaun í Ítalíu en engin heima í Hollywood. Clair sneri aftur til Frakklands og leikstýrði þar rómantískum gamanmyndum, m.a. hinum fræga Brassens í eina skiptið sem hann fékkst til að leika í bíómynd. Clair skrifaði líka skáldsögur og fræðibækur um kvikmyndir. Nýbylgjunni í Frakklandi var illa við hann og var hann sakaður um að gera myndir fyrir „gamlar kellingar sem fara í bíó tvisvar á ári“ (en nýbylgjan var strákagengi líkt og Birtingur). Þess vegna er hann kannski ekki jafn frægur lengur og hann verðskuldar þrátt fyrir stærð sína á unga aldri.

Previous
Previous

Himnesk hæna

Next
Next

Norrænar bókmenntir í Cambridge