Norrænar bókmenntir í Cambridge

Nýlega kom út ný saga norrænna bókmennta frá Cambridge University Press en ég er einn hðfunda hennar. Bókin er eins og sjá má fjólublá en ritstjórar hennar eru Heather O’Donoghue og Eleanor Parker. Norræn fræði hafa lengi verið iðkuð á Bretlandseyjum og um 1930 var helsti málsvari þeirra í Oxford sjálfur J.R.R. Tolkien sem vann sér inn varanlega frægð sem nýjungamaður í skáldskap en þekking hans á hefðunum var einmitt helsti styrkur hans þegar kom að hinni nýju fantasíugrein. Tolkien beitti sér fyrir því að Gabriel Turville-Petre varð dósent í íslensku í Oxford en hann var Íslendingum að góðu kunnur, m.a. fjölskylduvinur minnar fjölskyldu og minnir mig að þau mamma hafi ferðast saman um söguslóðir Víga-Glúms sögu þegar hún var 16 ára. Þegar ég kynntist fyrst enskum norrænufræðingum voru flestir þeirra nemendur Gabriels og segja má að norræn fræði lifi enn góðu lífi á Bretlandseyjum þó að þarlendir hafi þann hvimleiða sið að lita á forníslenskuna sem hálfgert viðhengi við fornensku. Þessi myndarlega bók sem CUP hefur núna gefið út er til marks um þá virðingu sem fræði okkar njóta. Einir 26 fræðimenn eiga þar greinar, 16 enskumælandi, fjórir frá Þýskalandi og öðrum Norðurlöndum og sex Íslendingar: ég, Guðrún Nordal, Torfi Tulinius, Ásdís Egilsdóttir, Sif Ríkharðsdóttir og Haki Antonsson.

Efnisvalið er fjölbreytt. Fjallað er um ýmsar tegundir bókmennta, líka þær sem venjulega njóta takmarkaðrar athygli og er það arfur frá Gabriel sjálfum en eitt mikilvægasta framlag hans er að vekja athygli á hinum lærða erlenda arfi úr þýðingum sem „kenndi Íslendingum ekki hvað þeir ættu að skrifa um heldur hvernig þeir ættu að gera það“ en sú margívitnaða tilvitnun var ansi byltingarkennd á þeim tíma sem hún kom fram upp úr 1950. Niðurskipan efnis í Cambridge-bókinni er haganlega eftir aldri umfjöllunarefnisins sem er gömul hefð en núna á nýjum forsendum — Jan Assmann menningarminnisfræðingur er að sjálfsögðu á heimildaskránni. Ég hef verið að dunda mér við að lesa greinarnar og finnst margar býsna góðar og þar athugasemdir að finna sem eiga eftir að hafa áhrif í rannsóknum norrænna bókmennta. Sérstakan áhuga vekja yngstu höfundarnir hjá mér enda óvanastur þeim.

Sú grein sem ég þekki best er auðvitað mín eigin grein um Sturlungusafnið og samtíðarsagnahugtakið og þar sem þetta er blogg en ekki ritdómur leyfi ég mér að segja aðeins frá henni. Fræðimenn sem eru teknir að gamlast eins og ég hafa stundum misst blóðbragðið svolítið, ég tala ekki um ef þeir afköstuðu miklu í æsku, og skrifa gjarnan pantaðar greinar. Því fylgir þó talsverð áhætta á endurtekningu og ein ástæða þess að ég tók Sturlungu í fóstur er að mín helstu verk um hana eru 20-30 ára gömul og ég hef aldrei skrifað um safnið allt en á því hafði ég mikið dálæti strax í barnæsku. Ég beini augum að samsetningu safnsins og næ að setja fram kaflaheitið „A Frame of Trolls“ sem mér finnst ansi hnyttið núna löngu síðar (réttið upp hönd sem þekkið vísunina). Ég held að ég nái að setja fram áhugaverða ábendingu um Svínfellinga sögu líka (ég get varla minnst á hana án þess að nefna þann hrekk pabba míns að segjast hafa tekið upp ættarnafnið Svínfells og ég héti núna Ármann J. Svínfells; honum fannst þetta jafn fyndið og mér 11 ára fannst það ófyndið) og ég skrifa aðeins um Sturlu þátt sem er stutt frásögn um Sturlu Þórðarson lögmann. Margir kannast við miðju þáttarins þegar Sturla hefur með sér tröllkonusögu til að skemmta konungi og drottningu en ég uppgötvaði annan þátt í sögunni.

Þar er aðalpersónan Þórður Narfason sjálfur sem er oft talinn safnandi Sturlungu þó að hugsanlega hafi Sturla sjálfur átt hugmyndina. Þórður var eins konar fóstri Sturlu og dvaldi hjá honum í æsku. Í þættinum er sagt frá áhyggjum hans af vini sínum Bárði Einarssyni en hann fær Sturlu til að spá um örlög hans. Þessi frásögn gerir mann hændari að Þórði sem við vitum fátt eitt um en við vitum þó að hann hafði miklar áhyggjur af vini sínum og ef hann hefur sjálfur samið þáttinn — eins og vel gæti verið — hefur hann laumað þessari minningu um forna ást sína inn í sögu um spádómsgáfu hins vitra lögmanns. Fólk er á öllum tímum fólk og sjálfu sér líkt.

Previous
Previous

René Clair í Hollywood

Next
Next

Það sem aldrei varð