Mannætan

Ég sá myndina No Hard Feelings í flugvél á leið til Istanbul í september í fyrra og hélt auðvitað að ég væri að sjá hana í fyrsta sinn en reyndist síðan hafa séð hana áður. Það segir auðvitað eitthvað um hversu eftirminnilega myndin er. Þetta er gamanmynd með Jennifer Lawrence úr Hungurleikunum og kannski vakti það áhuga minn í bæði skiptin því að Jennifer hefur vissulega stjörnuglamúr. Hún leikur eldri konu (yfir þrítugt!) eða það sem kallast núna MILF (mun ekki skýra það hér) sem er leigð til þess að fleka táningsson ríks pars sem hefur áhyggjur af reynsluleysi drengsins sem er á leið á heimavist. Það tekst að lokum en gengur ekki þrautalaust. Þessi söguþráður er vel kunnur og eiginlega fátt í myndinni sem er beinlínis nýtt. Það þarf allan sjarma Lawrence til að halda myndinni á floti en áhugaverð er hún sem heimild um siðferði nútímans og kannski eina ástæðan að fjalla um hana hér í ljósi þess að ég er engum háður og þarf ekki að skrifa um neitt!

Það er kunnara en frá þurfi að segja að á seinustu áratugum hafa orðið ákveðin endaskipti á hægri og vinstri í þeim hlutum heimsins þar sem áhrifin frá Bandaríkjunum eru mest og þar sem sannir hægrimenn hafa stolið drjúgum hluta vinstriorðræðunnar með þeim afleiðingum að að einhverju leyti hafa arftakar vinstrimanna núna tekið að sér fornt hlutverk kaþólsku kirkjunnar og síðar hins siðlega meirihluta bandaríska predikarans ódeiga Jerrys Falwell að halda uppi góðum siðum en auðvitað undir þeim formerkjum að vernda lítilmagnann sem raunar var líka það sem kaþólska kirkjan taldi sig vera að gera. No Hard Feelings er einkennilega á skjön við þennan móral allan og er kannski að reyna að vera frönsk mynd frá 8. áratugnum enda er enginn hörgull á fólki sem kallar hana „gross“ og „creepy“ á netinu þó að hún hafi líka verið gagnrýnd fyrir að hætta að vera fyndin löngu fyrir sögulok — sem er raunar alveg réttmætt gagnrýni og helgast e.t.v. af því að höfundum fannst þeir þurfa að skrifa eins konar boðskap inn í myndina. En prik fyrir myndin fyrir notkunina á laginu „Maneater“ með Hall og Oates; kannski er hún öll hnyttið tilbrigði við stef þess minnisstæða lags.

Flestir telja þó að Jennifer Lawrence standi sig vel og eins hinn ungi Andrew Barth Feldman þó að raunar finnist mér Matthew Broderick bestur í hlutverki pabbans. Lawrence er eins konar „sex worker“ eins og það er núna kallað (stundum finnst mér að viðhorfin til vændis snúist á tíu ára fresti og skilji þá fastheldnu á eigin viðhorf eftir munaðarlausa) og á alla sögusamúðina þar sem hún er að reyna að bjarga húsinu sínu frá aðfluttu ríku pakki. Drengurinn er skrítin skrúfa með furðuleg áhugamál en viðkvæmir unglingar eins og hann voru nánast bannaðir í bandarískum bíómyndum á Porkys-árunum þegar ég var unglingur; þeir fáu sem sáust voru hæddir og niðurlægðir öllum til ánægju. Þessum unga manni er hins vegar lýst af nærfærni og leikarinn stendur sig ágætlega.

Mín eigin niðurstaða er að boðskapur myndarinnar standi ekki undir sér og hefði jafnvel mátt sleppa honum. Það er leiðinda krafa að allt efni þurfi að staðfesta einhver almenn sannindi um heiminn. Myndin er því miður ekki heldur nógu fyndin þó að hún sé ekki leiðinleg. Frakkar hafa tekið betur á þessu MILF-þema í tímans rás enda sennilega ólíkt betur til þess fallnir að kenna heiminum eitthvað um kynlíf en hinir frómu Ameríkanar sem voru svo óheppnir að erfa kalvinismann og ýmsa árnýaldarhugsun.

Next
Next

Enginn tími fyrir hatur