Teiknimyndamenntun aldraðs bókmenntafræðings

Ég gafst loksins upp á þrýstingi frá allmörgum vinum og greip færið þegar Netflix setti inn fjölda mynda frá Studio Ghibli nýverið og horfði í lok mars á einar átta myndir frá þessu japanska teiknimyndafyrirtæki, þar af tvær óskarsverðlaunamyndir og þrjár sem á þeim tíma voru á lista IMDB yfir 100 bestu myndir allra tíma. Ég valdi myndirnar sem bæði vinir mínir og netið mæltu sérstaklega með og varð svo ákafur að einn daginn horfði ég á fjórar, ekki af því að mér lægi á heldur vegna þess að ég gat einfaldlega ekki hugsað mér að gera neitt annað við tímann minn en að kynnast þessum heim og þessari fagurfræði. Maðurinn á bak við Studio Ghibli er Hayato Miyazaki (f. 1941) sem er sennilega meðal snjöllustu kvikmyndagerðarmanna seinustu fimm áratuga og fyrstu fjórar myndirnar sem ég sá eru allar fjórar skrifaðar af honum. Mér var sagt að byrja á Farandkastala Hauru (2004) en innblástur hennar er samnefnd skáldsaga sem Diana Wynne Jones (1934–2011) samdi. Ég verð að viðurkenna að Wynne-Jones þekkti ég ekki nógu vel áður en þessi mynd var stórkostleg á margan hátt, bæði sagan og myndirnar en hún fjallar um ást ungrar stúlku í álögum sem öldruð kona og eins konar galdrastráks sem stundum er í fuglslíki og er dæmi um ofurfallegan bishōnen-dreng en sú týpa setur mjög svip sinn á asíska alþýðumenningu.

Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn sem er ansi stórkostlegur en það vakti strax athygli mína að sjónbeinir frásagnarinnar er táningsstúlka og 10-19 ára stúlkur eru raunar söguhetjan í öllum fjórum myndum Miyazaki sem ég byrjaði á. Frægust af öllum er líklega Chihiro no Kamikakushi (2001) sem heitir Spirited Away á ensku og ég er feginn að ég sá hana ekki fyrst því að hún er svo stórkostleg að ekkert stenst samjöfnuð. Aftur er það ung stúlka og ást hennar á bishōnen-dreng sem eru í öndvegi en einnig koma tvær kostulegar galdrakerlingar við sögu og afar sérstætt baðhús. Það er helst í ljóðum Anne Carson (sjá nýlega grein á þessari síðu) sem maður finnur annan eins frumleika hvort sem er í myndmáli eða atburðarás og ég horfði bergnuminn á hvern einasta ramma. Sérstaklega áleitin er persónan Kaonashi eða „No Face“ sem er líklega ein sú mest „krípí“ (svo að ég noti málfar 21. aldar Íslendinga) sem ég hef séð en stúlkan Chihiro eða Sen nær þó eins konar taumhaldi á þessari skuggaveru. Það er erfitt að velja milli atriðanna í baðhúsinu og lestarferðarinnar sem söguhetjan leggur í undir lok myndarinnar þegar tilnefna á hátindinn; á hverju augnabliki er maður kynntur fyrir einhverju nýstárlegu sem er í senn ógnvekjandi, framandi og fyndið. Þó að þessi mynd sé raunar í 32. sæti á IMDB-listanum er hún hugsanlega jafnvel vanmetin þar.

Af allt öðru tagi er Tonari no Totoro (1988), falleg og einföld mynd sem mætti jafnvel teljast í anda Astrid Lindgren og fjallar um tvær systur í sveit ásamt pabba sínum sem er prófessor og þar af leiðandi auðvelt fyrir mig að tengja við. Þessar stúlkur eru á sviðinu mestalla myndina og eins mennskir nágrannar þeirra, m.a. fyndni og hræddi drengurinn Kanta, en í grennd eru líka yfirnáttúrulegir nágrannar, þ.e. tröllið Totoro sem sést ekki oft í myndinni en vomir samt yfir henni. Yfirnáttúran í þessari mynd er undirfurðuleg og tvíræð, hugsanlega aðeins til í ímyndun stelpnanna. En þó að sagan sé þannig séð ekki um neitt er yfir henni sérkennileg listræn angurværð þannig að hún nær djúpt inn í sálina á manni. Það virðast raunar flestar myndir Miyazaki eiga sameiginlegt, hann er eins konar Jónas Hallgrímsson eða Halldór Laxness japanskra teiknimynda 20. aldar og kannski jafnvel fremri en þeir báðir að því leyti.

Ég þurfti síðan smá frí frá allri þessari yfirnáttúru og göldrum og Mimi o Sumaseba eða Hvísl hjartans (1995) er öðruvísi kvikmynd, engin þjóðfræði eða ævintýri en hins vegar sama lágstemmda tilfinningatjáning og angurværð. Aðalpersónan er stúlka sem er að gera tilraunir í poppinu fyrir áhrif frá John Denver og er strítt af strák sem hún þekkir ekki. Síðar kemur í ljós að þessi drengur sem jafnan gengur um í frekar aðskornum gallabuxum og lyftir alltaf bakhlutanum þegar hann hjólar (myndir Miyazaki eru fullar ef lágstemmdri erótík) hefur tekið út af bókasafninu allar sömu bækur og hún (þetta uppgötvast með hjálp miðanna sem ég ólst líka upp við í bókasafnsbókum en yngri lesendur skilja varla um hvað ég er að tala). Hann reynist síðan hafa verið að lesa bækurnar í von um að einmitt þessi bókaóða stúlka læsi þær síðan og tæki eftir honum. Drenginn langar til að gerast fiðlusmiður og hyggst nema það í Ítalíu. Stúlkan hrífst af metnaði hans en finnst hún sjálf eftirbátur hans í að láta draumana rætast. Þetta er falleg ástarsaga sem nær hámarki þegar stúlkan nær nýju sambandi við útsýni heimaborgar sinnar (sem er bara Tokyo, held ég).

Ég get ekki lýst öllum átta myndunum í einni stuttri grein en vonast til að geta skrifað um hinar líka að lokum (mun sannarlega gera það ef lesendur lýsa áhuga). Á seinustu þremur árum hef ég sjálfmenntast mikið í kvikmyndalist með aðstoð góðra vina og ég er glaður að vera ekki svo dauður úr öllum æðum að hafa látið myndir Studio Ghibli fram hjá mér fara öllu lengur.

Previous
Previous

Nótt í kirkjugarðinum

Next
Next

Röng Norma