Tyftandi almætti

Skáldið John Donne (1572–1631) var virðulegur maður á sínum tíma, tólf barna faðir sem gegndi prestsembætti, sat á þingi og hlaut heiðursdoktorsnafnbót frá Cambridge. Þó voru fæst verka hans gefin út meðan hann lifði, meðal annars ekki hinar svokölluðu „heilögu sonnettur“ sem komu fyrst á prent árið 1633 og stóð sonur Donne fyrir því. Ljóð Donne hafa þótt djúpvitur og heimspekileg en auðvitað að einhverju leyti einkennandi fyrir tíma sinn, örlítið fyrir daga Hallgríms okkar Péturssonar. Heilögu sonnetturnar eru sérstaklega áhugaverðar bæði vegna forms og inntaks. Flestar fylgja þær dæmi sonnettumeistarans Petrarca með því að greinast eðlilega í tvennt (8 vísuorða hluta með tvöföldu ABBA-rími og sex vísuorða hluta) og eru undir fimmliðuhættinum sem einnig tíðkaðist hjá samtímamanni Donnes, sjálfum Shakespeare. Donne þótti ekki fara vel með rímið og Alexander Pope (1688–1744) endurorti eða „þýddi“ sum ljóðin hans á það sem honum þótti vera betra enskt ljóðmál rúmri öld síðar (sem er óneitanlega fyndið).

Líkt og Hallgrímur yrkir Donne um viðureign sína við dauðann (að ofan) en á aðeins öðrum nótum. Donne er næstum eins og rökfræðingur að skýra smæð dauðans sem hann vill gjarnan lækka rostann í en eins og sjá má á allt annan hátt en Hallgrímur í „Um dauðans óvissa tíma“ (eða sálminum um blómið). Það gerir hann með því að taka fram að dauðinn sé ekkert svo hræðilegur og geti ekki drepið hann í raun. Það er engu líkara en Donne hæðist að dauðanum sem geti ekkert gert sem svefninn geri ekki líka og auk heldur sé svefn dauðans tímabundinn því að lokum muni almættið deyða dauðann. Ljóðmál Donnes er árásargjarnt, hann ávarpar dauðann, rífst við hann á röklegan hátt og kallar hann þræl örlaganna og manna sem drepa aðra sem þar að auki eigi samleið með eitri og veikindum. Það er næstum eins og skáldið heimspekilega sé bálreitt við dauðann, vilji fara í slag við hann og telji sig nánast jafnan honum. Maður skynjar Donne sem erkitöffara sem hlýtur að hafa klætt sig vel og gengið með sveiflu. Hefði kannski verið leikinn af Jeff Goldblum í kvikmynd fyrir 30 árum.

Sú sonnetta sem greip mig einna fastast (að ofan) fjallar um ofbeldissamband Guðs og manns, e.t.v. undir áhrifum frá Jobsbók. Hallgrímur orti svo að ég viti aldrei neitt slíkt. Donne vill að Guð (allar þrjár persónurnar) berji sig, beygi sig og brjóti (er hann kannski Ian Dury 17. aldar trúarskáldskapar?). Hann líkir sjálfum sér við hertekna borg og biður persónurnar þrjár um að skilja við sig, losa böndin, fangelsa sig enda verði hann aldrei frjáls nema þræll og aldrei hreinn nema Guð saurgi hann. Hann kallar skynsemina vísikonung (eða landstjóra) Guðs inni í sér sem er afar sérstakt myndmál og á það raunar við um allt myndmálið í sonnettunni sem ég hneigist til að kalla BDSM-sonnettuna í laumi. Það er kannski þessi ómældi kjarkur sem einkennir Donne sem skáld. Hann er sinn eigin maður og fylgir engri forskrift.

Donne orti líka um konu sína (að ofan) í einni af heilögu sonnettunum en flestar voru þær ortar eftir að hann varð ekkill. Hér fjallar hann um flókið ástarsamband sitt við guð sem hefur komið í stað konunnar og því finnst honum ótilhlýðilegt að sakna hennar en gerir það samt — þó að ást guðs eigi að vera nóg er hún það samt ekki. Þetta er sem fyrr afar óvenjulegt þema í trúarkvæði fyrir utan auðvitað frasann „holy thirsty dropsy“ sem er annað hvort kjánalegasta eða besta ljóðlína 17. aldar. Í lokin virðist Donne gefa til kynna að sjálft almættið sé mildilega afbrýðissamt út í holdlega ást hans til látnu eiginkonunnar. Ég hef sjaldan kynnst fríkaðra trúarskáldi og hef á tilfinningunni að ef Donne lifði núna væri hann sennilega að skrifa The White Lotus ásamt Mike White. En Donne er þrátt fyrir að vera prestur að hugsa um sitt eigið persónulega samband við konuna, dauðann og guðinn með svipuna. Að sumu leyti er hann eins og dulhyggjumennirnir sem opna aftur guðfræðina sem fræðimennirnir höfðu lokað nema að hann hugsar alls ekki eins og þeir heldur eins og sérstæður rökhyggjumaður sem er einfaldlega á eigin línu.

Að lokum má geta þess að Donne orti fleira en sonnettur (sjá að ofan). Í æsku sinni orti hann gjörólíkt og notaði sonnettuformið ekki í ástarljóð sín. Á þeim tíma var hann enn kaþólskur en skipti síðan um trú til að fá starf sem mótmælendaprestur. Hér virðist hann vera yrkja um ástkonu sína eða eiginkonu og holdlega ást þeirra sem jafnframt er andleg og mun að lokum hverfa með þeim í eilífri sælu. Í öðru ljóði sínu, ‘Farewell to Love’, hafnar hann hins vegar alfarið hinu guðlega í holdlegri ást og virðist á alveg öndverðu máli við sjálfan sig í ljóðinu að ofan, líkir ástinni jafnvel við deyfilyf og er örlítið spottandi og jafnvel klúr. Donne hafði marga strengi í sinni hörpu og var sannarlega einstök rödd í 17. aldar skáldskap. Þó að ég hafi þekkt nafn hans fyrr kom hann mér mjög á óvart þegar við vinirnir pældum saman í honum og þótti hvergi nærri nóg.

Previous
Previous

Vaknað úr dái

Next
Next

Ráðlausir foreldrar, ráðlaust samfélag