Konan sem var Edgar Allan Poe á Íslandi

Um mánaðarmótin september og október síðastliðin sat ég málþingið „Heim smásögunnar“ og á slíkum málþingum fræðist maður alltaf talsvert þannig að það er jafnvel þess virði að sitja slík þing heila helgi. Fyrsta erindið hélt Ástráður Eysteinsson sem er einn nýrra þýðenda í þessari mikilvægu bók með þýðingum eftir Edgar Allan Poe og meðal þess fjölmarga sem þar kom fram var að fimm smásögur eftir skáldkonuna Ameliu Edwards hefðu verið gefnar út tvisvar (1934 og 1994) undir heitinu Slunginn þjófur og aðrar sögur eftir Edgar Allan Poe þó að þær hefðu verið eftir Edwards en ekki Poe en ég hafði ekki heyrt Edwards getið fyrr en áður þannig að ég á Ástráði að þakka að hafa vísað mér á þessa merku skáldkonu.

Sögurnar munu allar koma úr safninu Miss Carew (1865) sem hægt er að lesa á netinu en ekki er enn vitað hvers vegna þær voru eignaðar Edgar Allan Poe eða hver átti frumkvæði að því. Edwards var einnig þýðandi, ljóðskáld, skáldsagnahöfundur en fyrst og fremst var hún unnandi Egyptalands og samdi m.a. eina ferðabók um Egyptaland (en aðrar kannski aðeins minna spennandi um Ítalíu og Belgíu) og smám saman varð Egyptaland æ fyrirferðarmeira í skrifum hennar. Hún átti mikið safn egypskra muna og studdi rannsóknir á Egyptalandi.

Edwards bjó í 30 ár með annarri konu, Ellen Drew Braysher, sem raunar var næstum 30 árum eldri en hún en hélt sig frá karlmönnum eftir misheppnaða trúlofun í æsku. Hún mun einnig hafa átt í ástarsambandi við gifta konu en í bréfum sem hún skildi eftir sig er ekkert minnst á það hvort þessi sambönd væru ástarsambönd eða ekki. Skáldið John Addington Symonds blaðraði þessu hins vegar í kynlífsfræðinginn Havelock Ellis. Edwards málaði líka og bæði samdi og flutti tónlist.

Á 19. öld þótti enn býsna gott að ná sjötugsaldri. Edwards lést 61 árs þremur mánuðum eftir andlát sambýliskonunnar árið 1892 og meðal þess sem hún lét eftir sig voru fjármunir til að stofna prófessorsstöðu í egypskum fræðum við University Collega í London sem enn er til. Sjö manns hafa gegnt þeirri stöðu síðan 1892, allt karlmenn.

Previous
Previous

Óttinn við nándina

Next
Next

Amlóðasaga í enskri höll