Híðishám, fyrri kvikmyndaþáttur
Febrúar tók nýja stefnu þegar ég afréð að horfa á eina mynd í dag að lágmarki í von um að fækka myndum á Netflix og víðar sem ég hafði merkt við í bríaríi en auk heldur fann ég að til að vinna vel þetta vorið þyrfti ég andlega hvíld og innblástur (sem skaut enda upp kollinum í mars og áfram). Merkilegar myndir fá sérgrein og ómerkilegar verða alls ekki ræddar en hér ræði ég hinar sem höfðu þó eitthvað sér til ágætis. Ein var galísíska myndin Live is Life — kennd við 1985-smellinn frá Austurríksmönnunum í Opus sem nágrannar mínir settu eftirminnilega á „lykkju“ fyrir um 20 árum nálægt miðnætti — en sú er samin af Albert Espinosa og leikstýrt af Dani de la Torre. Hún gerist einmitt árið 1985 þegar höfundarnir voru ungir og söguhetjurnar því greinilega úr mínum árgangi og innblásturinn hugsanlega myndir eins og Stand by Me og BMX-bandíttarnir (sjá myndina að neðan) þó að það sé ekki hægt að líkja spænskri mynd við engilsaxneskar, til þess er andinn of ólíkur; spænska 1985 er líka þrátt fyrir allt mun líkara því íslenska en það bandaríska eða ástralska. Meðal persónanna eru tvíburar sem eru leiknir af tvíburum (engar tæknibrellur). Myndin er auglýst sem ævintýramynd um fimm drengi sem fara að leita að blómi með lækningamátt á Jónsmessunótt en meðal ljóna á veginum eru mótorhjólatöffaragengi sem hefur þrautseigju á við Ögmund Eyþjófsbana, smábarn í nauð (sem virðist eiga illa heima í myndinni en færir henni samt eitthvað sérstakt), krabbamein, dásvefn og fólk í ömurlegum aðstæðum. Myndin hefur verið gagnrýnd fyrir losaralegt handrit, skort á skýrum átökum og samræður sem hafa óljósan tematískan tilgang en mér finnst það hluti af sjarma hennar. Ég er farinn að vantreysta þétt plottuðum listaverkum þó að ég hafi vissulega sett nokkur slík saman sjálfur af því mig langaði til. Stundum eru losaralegar sögur skemmtilega ótilgerðarlegar og þetta er kvikmynd sem lifir með manni, líklega ekki síst vegna þeirrar óeitruðu karlmennsku sem aðalpersónurnar standa fyrir.
Ég náði að horfa á tvær myndir enn um útiveru og óbyggðaferðir til að bæta fyrir eigin skort á útiveru í svartasta skammdeginu. Bandaríska gamanmyndin Happiness for Beginners leit ágætlega út á Netflix og reyndist gerð eftir skáldsögu eftir Katherine Center sem hljómar meira eins og safn en manneskja. Myndin var fín í 100 mínútur, eins og iðulega er besta atriðið þegar fyndnu aukapersónurnar eru kynntar (leiðsögumaðurinn stendur upp úr en sjálf aðalpersónan var frekar leiðinleg), en ég get ekki haldið svona myndum aðgreindum til frambúðar. Kanadíska kvikmyndin The Package varð á vegi mínum fyrir tilviljun vegna þess að ég hafði nýlega séð einn leikarann í góðri mynd. Hún reyndist vera gamanmynd af grófara taginu, svipuð og þær sem voru vinsælar þegar ég var í gaggó (Porkys og þær) en þó laus við allar þær fjölmörgu tegundir af rembu sem einkenndi þær þannig að þó þetta yrði ekki mjög merkileg listræn reynsla er myndin skýr vísbending um að jafnvel lágkúrumórallinn hefur batnað talsvert á 40 árum. Þar fyrir utan var þetta fjörleg saga með góðum takti (mín fjölskylda fílaði alltaf eltingarleiki í myndum) og húmorinn skemmtilega óvæntur á köflum þó að grínið væri afar holdlegt og mestallt á unglingastiginu.
Sænski barna- og ungmennabókahöfundurinn Mats Wahl er Íslendingum að góðu kunnur enda hafa ýmsar bækur hans verið þýddar á ástkæra ylhýra af Hilmari Hilmarssyni fv. skólastjóra, m.a. Vinterviken sem kom út strax árið 1995. Hún hefur síðan verið kvikmynduð tvisvar og nýrri kvikmyndin er á Netflix og er þar kölluð JJ+E sem er sennilega enskt heiti hennar en ekki auðveldar þetta íslenskum aðdáendum Mats Wahl aðgang að myndinni. Ég sá þessa mynd í febrúar og hún er prýðileg, trú bókinni í stórum dráttum en ýmsu breytt. Vetrarvíkin er eins konar Rómeó og Júlíu saga sem varpar ljósi á stéttaandstæður í fyrirmyndarríkinu Svíþjóð. Aðalpersónurnar heita John-John og Elisabeth; himinn og haf eru á milli félagslegra aðstæðna þeirra, John-John er alinn upp í heimi smákrimma þar sem vopnaburður þykir eðlilegur (hugsanlega í einum af þessum alræmdu sænsku hverfum sem löggan þorir ekki að stíga fæti sínum í) á meðan Elisabeth er úr einbýlishúsi af íslenskri stærð. Myndin hefur ekki gert neitt sérstaka lukku á Netflix en mér fannst hún ágæt, leikararnir ungu sjarmerandi og sjálf Loreen er í aukahlutverki sem móðir John-John. Wahl skrifaði þrjár bækur um parið og þær komu allar út á íslensku fyrir löngu.
Eins og sjá má af þessum hámhorfsgreinum mínum er efni Netflix ekki aðeins nýtt og bandarískt heldur líka fullt af spænsku og sænsku og jafnvel gömlu efni. Þar á meðal er enska njósna- og glæpamyndin They Can’t Hang Me frá 1955 sem ég horfði á sem hluta af þessu átaksverkefni (raunar líka The Long Arm sem ég hafði áður séð og er frábær mynd). Myndin byrjar frekar hallærislega með því að njósnari nokkur að nafni Pitt er dæmdur til dauða og hrópar orðin sem verða titill myndarinnar. Síðan býður hann stjórnvöldum samning um að hann afhjúpi njósnarann „Leonidas“ gegn því að dómur hans verði mildaður. Lögreglumanninum Brown er falið að kanna málið og jafnvel finna njósnarann. Hátindur myndarinnar voru atriði þar sem lögreglan var keyrandi um allt með risavaxin labbrabbtæki (sjá að neðan) en einhver á höfuðstöðunum var að færa menn til á risastóru korti af Thames-ánni (svipað og grunnurinn í spilinu Scotland Yard). Einhvern veginn grunaði mig að Pitt slyppi ekki svo létt í miðju kalda stríðinu og auðvitað fann löggan njósnarann án þess að semja við föðurlandssvikarann. Sá er svo hlaupandi um í jakkafötum með mikilvægt vopn sitt og einkennisklæddar löggur á eftir og að lokum skýtur hann sig. Ég hafði í anda yngri mynda ímyndað mér að næstmikilvægasta löggan hlyti að vera svikarinn en hann var þvert á móti bara sá sem hann sýndist vera.
Ítalska kvikmyndin Nuovo Olimpo (2023) er úr smiðju Ferzan Özpetek sem gerði hina frábæru tilvistarlegu kvikmynd um tyrkneska baðið og er að sögn sjálfsævisöguleg. Aðalpersónan er ungur kvikmyndagerðarnemi að nafni Enea sem rekst á óvart á hægláta læknanemann Pietro í bíóinu sem myndin er kennd við og er rekið af hinni sérvitru Titti. Enea og Pietro ná strax ótrúlega vel saman og meðal annars í rúminu en þetta er fyrir daga netsins og þeir hafa ekki skipst á fullum nöfnum eða símanúmerum þegar óeirðir sumarsins 1978 valda því að þeir geta ekki hist þriðja daginn og ná aldrei saman aftur. Tíu árum síðar sér Pietro kvikmynd sem Enea hefur gert um ástarsamband þeirra og áttar sig á að þetta er maðurinn sem hann missti af en er þá giftur Giuliu. Hann fer aftur í bíóhúsið að leita að Enea en það er ekki lengur svipur hjá sjón og Enea ekki þar. Fimm árum síðar sjást þeir fyrir tilviljun hvor í sinni lest þegar Enea er í sorg við að heyra af andláti Fellinis (auðvitað!) og Pietro fer þá að hitta Enea sem er tekinn saman við vatnspólóleikarann Antonio. Löngu síðar lendir Enea í slysi og það er fyrir einkennilega tilviljun Pietro sem sker hann upp. Þá loksins hittast þeir í alvöru en það er 37 árum of seint og lífið sem þeir hefðu getað átt saman er liðið. Eins og heyra má er Özpetek gjarn á að glíma við tilvistarspurningar og er kannski undir áhrifum frá Before-myndum Linklaters hér. Nuovo Olimpo er ekki jafn rækileg og þær en Özpetek tekst í 1978-hlutanum (þegar allir eru reykjandi í bíóinu, þó ekki í salnum) að láta mann halda með Enea og Pietro og skynja þar með harminn í því að þeir nái ekki að eiga samleið nema í örstutta stund en um leið óvissuna um að lengri tími saman hefði endilega verið þeim hliðhollur.
Ein sérkennilegasta kvikmynd sem ég hef lengi séð heitir The Scandalous Four og ég skil ekki alveg hvernig hún komst inn á Netflix. Í henni eru eintómir leikarar sem maður sér aldrei í kvikmyndum eða sjónvarpi þrátt fyrir allmikil kynni af enskum þáttum, sumir samt augljóslega fagmenn. Leikstjórinn er kona sem ég hafði ekki heldur heyrt getið áður en hið kvenlega sjónarhorn er augljóst. Um tíma grunaði mig að myndin væri eins konar skólaverkefni en þó er hún full löng og dýr fyrir það (samt augljóslega ekki hlutfallslega dýr kvikmynd). Þetta merkir ekki að myndin hafi verið slæm heldur fyrst og fremst öðruvísi og handritið raunar betra en í mörgum dýrum og ofurframleiddum myndum, persónusköpunin dýpri og samfélagsmyndin eðlilegri. Aðalskonan Penelope er gefin ríkum manni sem hún hefur lítinn áhuga á og fljótlega kemur í ljós að það er gagnkvæmt en þeim mun meiri áhuga hefur hann á þjóninum George. Í fyrstu veldur þetta henni hugarangri uns þeir félagar ráða nýjan garðyrkjumann sem var áður tónlistarkennari hennar og aðdáandi og fljótlega eru þau hjón farin að halda hvort við sinn þjóninn. Hjónin ganga í gegnum flókið aðlögunartímabil en að lokum hittast pörin syndandi í tjörn stórhýsisins og í kjölfarið verða jafnvel þjónusturnar tvær hluti af einkennilegri kommúnu þar sem húsbændur og hjú eru jöfn. Þó að þetta sé allt heldur látlausara en t.d. Bridgerton eða Downton Abbey er sagan líka raunsærri því að samfélag 18. aldar er álíka andsnúið „litla leynifélagi þeirra“ og við væri að búast. Þau þurfa að halda andlitinu út á við og spennan í myndinni snýst um hvort þessi litla útópía verði afhjúpuð og eyðilögð. Lausnin er vel steikt eins og ég var farinn að búast við (átti þó ekki beinlínis von á göldrum) en skemmtileg. Myndin fer í sama flokk hjá mér og Schitt’s Creek, það sjaldgæfa fyrirbæri sem er listaverk með góðan og greindarlegan boðskap.
Ég hef ekki kynnst mörgum Lettum fyrir utan sjúkraþjálfarann minn og þekki Lettland fyrst og fremst frá söngvakeppninni en Jelgava’94 er kvikmynd byggð á skáldsögu Janis Jonevs sem er verðlaunuð vinsældabók og talin sjálfsævisöguleg. Aðalsöguhetjan heitir a.m.k. Janis og er stundum eltur af eldri sjálfum sér um götur bæjarins Jelgava suður af Riga (50 þúsund íbúar) en eineltismenningin í Lettlandi árið 1994 virðist svipuð og á Spáni 1985 og Íslandi 1975. Mig grunar að hún hafi hitt í mark með því að lýsa hinni nöturlegu lettnesku stemmingu áranna upp úr 1990 þegar auðhyggjan flæddi óheft yfir landið og einkum ársins þegar Kurt Cobain dó. Söguhetjan er 14 ára strákur sem áður var bestur í bekknum en tekur ástfóstri við rokk og annan ólifnað gegnum nýja eldri vini sína sem hann dreymir um að stofna Seattle-rokkhljómsveit með. Manni fer smám saman að þykja smá vænt um piltinn og jafnvel vinina líka og skilja þráhyggjuna þó að hún komi honum í bobba. Engar einfaldar lausnir eru til en mann grunar að Janis ungi komist út úr þessu stóráfallalaust að lokum úr því að hann er mættur þrítugur að fílósófera við sjálfan sig.