List smáatriðanna (og foreldrahlutverksins)

Ég brá mér í bíó að sjá Anatomie d’une chute (Fallið er hátt) með Söndru Hüller sem hefur sannarlega skotist upp á stjörnuhiminn undanfarið og ég fjallaði nýlega um frábæra frammistöðu hennar í hlutverki frú Höss í Zone of Interest sem er sannarlega ein besta mynd áratugarins en Fallið er hátt er ekki síðri, hún er alls tveir og hálfur tími og ekkert hlé en mér fannst hún ekki mínútu of löng, heldur eins og hún þurfti að vera. Innblásturinn er augljóslega sóttur í öll sannrasakamálahlaðvörpin en slík saga er nýtt í myndinni til að ræða eðli heimilda, sannleikans og flókinna sambanda. Eins skiptir máli að sakborningurinn í þessu réttardrama er útlensk kona (sem heitir Sandra eins og leikkonan), auðvelt skotmark réttarkerfisins vegna þess að hún er framandi, líkt og Amanda Knox eða Lindy Chamberlain (sem var raunar ekki útlensk en í sértrúarsöfnuði). Ég stóð svolítið með henni í myndinni en samt er ekki beinlínis hægt að segja að hún sé sympatísk, samband hennar við soninn er þannig einkennilega kuldalegt og áhorfandinn veit varla hvað hann á að halda um sakleysi hennar. Þetta er ekki mynd þar sem gefið er hver er góður og hver ekki.

Flestar persónurnar í myndinni eru lögfræðingar eða starfsmenn réttarkerfisins og eru haganlega smíðaðar og eftirminnilegar. Ég fór að hugsa um þær allar sem fólk frekar en einungis hlutverk. Það á t.d. við um konuna sem ver Söndru og er greinilega góður verjandi þrátt fyrir að hún sé skrækróma eins og barn. Eins er testosterónhlaðinn en greinilega mjög hæfur saksóknari áhugaverður þó að við sjáum hann aðeins við störf sín. Aðaláherslan er þó á þriggja manna fjölskyldu með hálfblindu einkabarni og blindrahundi. Maðurinn deyr á grunsamlegan hátt, konan er eini hugsanlegi gerandinn fyrir utan hinn látna og drengurinn (og á sinn hátt hundurinn) eru einu vitnin. Á endanum virðist það vera hlutverk hins ellefu ára Daniels að ákveða hvort mamman eða pabbinn fækkaði foreldrum hans um eitt. Drengurinn virðist í fyrstu vera aukapersóna en smám saman verður lykilatriði hvernig foreldrarnir komu fram við hann; líf þeirra hefur greinilega snúist enn meira um hann eftir slysið en samt er eins og hann sé aukaatriði í sambandi tveggja sjálfhverfra listamanna. Hann er bæði einstaklega þroskaður og hæfileikaríkur en líka frekar barnalegur sem kemur fram í tveimur átakanlegum atriðum í lokin þegar mamman ber hann upp í rúm (enginn hélt á ellefu ára barni þegar ég var 11, allra síst konur) en síðan virðist hún í kjölfarið leita huggunar hjá honum eins og fullorðnum manni fremur en hugga hann sem barn. Hún er ekki beinlínis mamma eins og manni finnst þær eiga að vera (fer t.d. út að borða þegar flestir hefðu farið heim til stráksins) en það merkir vitaskuld ekki að hún hafi rangt fyrir sér í ágreiningnum við manninn eða að hún hafi framið morð.

Til að koma því enn betur til skila að umfjöllunarefnið eru frásagnir, sannleikur og heimildagildi eru bæði hjónin í myndinni rithöfunar, hann misheppnaður en hún nýtur velgengni. Bæði virðast skrifa eins konar „autofiktion“ þar sem höfundur notar eigið líf og eðlilega blandast skrif þeirra inn í réttarhöldin. Velgengni er áleitið umhugsunarefni allra listamanna og eins samband lífs og listar; stundum finnst manni eins og það sé ekki jafn mikill áhugi á neinu öðru sem varðar bókmenntir. En hefur Sandra náð árangri í listinni með því að vera samviskulaus og stela frá manninum? Hversu etískur var hinn látni sem átti til að taka upp það sem gerðist á heimilinu án þess að segja neinum og spila tónlist óeðlilega hátt? Á endanum sé ég kost og löst á báðum hjónunum en fann ekki beinlínis tilefni til morðs. Vandi hinna persónanna í myndinni er hins vegar sá sami og okkar, enginn veit hvað gerðist og þó að flestar persónurnar séu í vinnunni og trúi því sem hentar starfinu þarf drengurinn Daniel að velja milli þess að búa hugsanlega með morðingja eða verða hugsanlega munaðarlaus. Sem skiptir máli þegar vitnisburður hans fer að ráða úrslitum um niðurstöðu morðmálsins — ég er raunar ekki viss um að þetta gæti gerst í alvöru réttarhöldum. Að lokum segir hann tvær sögur í réttarhöldunum og önnur er greinilega sönn en óvissara um hina en tilfinning manns um þá seinni er að það sé hún sem ræður úrslitum um niðurstöðuna.

Þrátt fyrir hugsanlega galla á sjálfum málaferlunum er þessi kvikmynd einkennilega sterk, vitsmunaleg og áhugaverð. Umfjöllunarefnin hljóta að vekja áhuga og þó að þau séu margrædd og vel þekkt er myndin einkennilega laus við klisjur og kemur því reglulega á óvart, eins og lífið sjálft. Þó að persónurnar séu gallaðar er ekki útilokað að hafa samúð með þeim og sérstaklega með stöðu barnsins sem þarf núna að takast á við lífið án þess að geta úrskurðað um sannleikann. Við erum öll að einhverju leyti í þeirri stöðu.

Previous
Previous

Röng Norma

Next
Next

Tónlist úr gæludýrabúðinni