Óblíð örlög andhetju

Nýlega var mér boðið að sjá hina frægu mynd Stanleys Kubricks, Barry Lyndon, í hágæðum (Blu-ray). Ég hafði séð myndina áður en líkt og gerist með bestu skáldsögur er enduráhorf jafnvel enn meira gefandi. Auk þess hefur æði mikil umræða verið um þetta snilldarverk seinni ár og hún þokast hratt upp alla lista um helstu kvikmyndaafrek sögunnar og í því ljósi er enduráhorf nauðsyn. Myndin er aðlögun á skáldsögu William Makepeace Thackeray frá miðri 19. öld en lýsir atburðum úr sjö ára stríðinu 1756-1763 og áfram. Oft er henni líkt við píkareskur þar sem söguhetjan er siðferðislega vafasamur ævintýramaður sem flækist víða og lendir í ýmsu. Mynd Kubricks er fræg fyrir haganlega notkun 18. og 19. aldar tónlistar sem kemur stundum í stað hins talaða orðs við að tjá atburðarásina og munar þar mest um Sarabande Handels og píanótríó Schuberts sem rammar inn ýmsar orðlausar senur eins og t.d. þegar Barry kynnist konu sinni. Hef ég varla séð betri notkun sígildrar tónlistar í kvikmynd frá dögum raksturssenunnar í Einræðisherranum.

Annað sem auðvitað setur svip sinn á kvikmyndina eru allnokkrar tilvísanir í málaralist 18. aldar, einkum Hogarth. Í myndinni eru ýmis „skot“ sem eru hreinlega sviðsetning á málverkum 18. aldar meistaranna. Kubrick var ljósmyndari áður en hann gerðist fremsti kvikmyndasnillingur síðari hluta 20. aldar og sá uppruni mótar hann. Auk þess er Barry Lyndon fræg fyrir að hefja „skotin“ á hinu smáa og víkka síðan út með afar góðum árangri og fyrir það að ljóskastarar voru ekki notaðir, aðeins náttúruleg ljós og flestar innisenur voru kvikmyndaðar við kertaljós. Eftir sem áður er myndin björt og auðsýnileg öfugt við marga sjónvarpsþætti nútímans þar sem maður sér stundum ekkert hvað er að gerast í öllu myrkrinu; skrítin fagurfræði sú og minnir mann stundum á bækur þar sem umbrotsmaðurinn fær að ráða öllu og textinn er ólæsilegur, hvítt á rauðu og önnur álíka skelfing. Í Barry Lyndon þjónar hins vegar öll þessi tilgerð sögunni og hvílík sviðsetning er ekki þessi mynd! Allir búningar trúverðugir fyrir 18. öldina og við erum eiginlega komin þangað en þó eru hjörtu mannanna söm og í nútímanum.

Ryan O’Neal leikur Barry, mikil stjarna um það leyti og myndarlegur á velli, stendur sig vel undir styrkri leiðsögn Kubricks en ber ekki af. Eins er hin ágæta Marisa Berenson afar eftirminnileg í útliti en leikur ekki beinlínis mikið. Kubrick bætti við sögumanni í myndina (sjálf saga Thackerays er rakin af Barry sjálfum) og er sá Michael Hordern sem hafði einhverja þokkafyllstu rödd enskra leikara á 20. öld. Texti Thackerays fær að njóta sín í flutningi hans og maður heyrir mörg stórbrotin orð og fagrar setningar sem kvikmyndagerðarmaðurinn ber augljóslega virðingu fyrir. Ánægjulegt fannst mér að sjá Murray Melvin sem ég sá í fyrra í A Taste of Honey, kvikmynd eftir sögu hinnar kornungu Shelagh Delaney sem kom fram á Sagan-árunum þegar öll Evrópa var að leita að tvítugum kvenhöfundum (Ást á rauðu ljósi var ein slík saga). Melvin er langleitur mjög og brillerar í hlutverki hins slepjulega klerks Runt. Annar góður leikari er Leon Vitali sem er Bullingdon lávarður, stjúpsonur Barrys Lyndon. Vitali varð síðar sérlegur aðstoðarmaður Kubricks. Þá er írski leikurinn Arthur O’Sullivan eftirminnilegur í smáu hlutverki hufflegs þjóðvegaræningja. Margir aðrir leikarar standa sig stórvel og njóta þess sumir að vera með snjóhvítu ilmvatnshárkollurnar sem settu svip sinn á 18. öldina.

Sagan er harmræn, einkum óblíð örlögs lítils sonar söguhetjunnar sem langar að eignast hest og það er gefið svo rækilega í skyn að illa fari að manni er næstum létt þegar stráksi loksins fellur af hestinum. Myndin er römmuð inn af einvígjum sem eru afar dramatísk og reynast sum sviðsett af vitnunum. Sérstaklega átakanlegt er einvígið í lokin sem af einhverjum ástæðum fer fram í dúfnakofa. Þar missir Barry allt sitt en myndinni lýkur samt ekki á honum heldur sigurvegurunum sem sitja uppi með auðæfin en enga hamingju, miðað við svip þeirra. Þá eru þrír tímar liðnir og þótt ótrúlegt megi virðast er myndin ekki mínútu of löng vegna þess hvílík veisla hún er fyrir öll skynfærin.

Previous
Previous

Erfitt að vera (sænskur) prins

Next
Next

Ívar hlújárn og aðrar „barnabækur“