Fégirnibaugar

Það eru ýmis góð atriði í syrpu 2 af Máttarbaugunum sem frumsýnd var á Prime í haust, flest í seinni hluta syrpunnar og næstum öll eru tengd ósýnilegri titilpersónu Hringadróttinssögu sem í þessum þáttum nefnir sig Annatar. Mér fannst skylda mín að horfa að nýju enda hef ég (þó að ég segi sjálfur frá) skrifað þriðju bestu fræðibókina sem ég hef kynnt mér um Tolkien á eftir bókum Tom Shippey og Brian Rosebury sem þið ættuð að lesa (allar þrjár) og á erfitt með að standast neitt Tolkientengt. Ekki var ég þó beinlínis hrifinn af fyrri syrpunni og þótti hún langdregin leiðindi fyrir utan lokaþáttinn sem lofaði raunar góðu. Helstu vandi þáttanna er að aðeins um 5% af þeim er í raun upp úr verkum Tolkiens og það er góði hlutinn af þeim. Afgangurinn er ekki einu sinni aðdáendaspuni því að sá er yfirleitt saminn af kærleik heldur eins konar númerateikning sem snýst aðeins um gróðavonir sem væntanlega er nauðsynlegt þar sem þættirnir munu vera rándýrasta sjónvarpsefni allra tíma.

Góða efni þáttanna er sem sagt saga Saurons (sem kallast Annatar) og Celebrimbors sem smíðaði máttarbauganna ásamt honum. Þeir eru báðir prýðilega leiknir af Charles Edwards og Charlie Vickers og halda uppi syrpu 2 og eru meginástæða þess að hún er þrátt fyrir allt betri en syrpa 1. Vickers hefur einkennilega mikinn pondus sem Sauron veitir ekki af, þegar hann er í mynd er þátturinn góður. Illu heilli á hið sama ekki við um aðra leikara þáttanna enda þeim ekki beinlínis hjálpað af illa skrifuðu handritinu. Skársta sagan er um dvergakónginn og son hans. Þessar tvær sögur halda þáttunum eiginlega alveg uppi. Númenor-sagan er líka smávegis frá Tolkien en samt ekki nægilega og er einkennilega bragðdauf kássa þrátt fyrir það. Enn verri eru hobbitarnir og álfar og menn úr seinasta þætti sem hefur dagað uppi en eru þarna samt að flækjast eins og afturgöngur. Morfydd Clark á fleiri góða spretti í hlutverki Galadríel en í syrpu 1 en persónan er vanhugsuð af hálfu handritshöfunda og leikkonan fær ekki rönd við reist. Umrennings-Gandálfurinn er líka með öllu óáhugaverður (hvar ertu, Ian McKellen?) og lítið bætir úr skák að láta hann hitta Tom Bombadil sem hefur ekkert sérstakt fram að færa í þessum þáttum og talar þar að auki með einkennilegum landsbyggðarhreim. Ég skil ekki tilganginn í því þar sem Miðgarður er ekki England eða a.m.k. ekki eingöngu.

Eiginlega hjálpa þættirnir Tolkien aðallega á þann hátt að áhorfandinn sér hversu gott efni höfundarins er í samanburðinum, jafnvel það slakasta. Það verður þeim til bjargar að sumt efni um Sauron úr bókinni og aðallega viðaukunum aftast er þar notað og er besta efnið. Tom Bombadil er vissulega svolítill útúrdúr í sjálfri Hringadróttinssögu en þó hefur hann ákveðna töfra sem hann skortir alveg í nýju þáttunum. Enn verra er þegar Entarnir birtast og hafa ekki heldur neitt að bedrífa nema að minna á sig (ekki að Jackson hefði djúpan skilning á þeim á sínum tíma). Eiginlega er þetta enn verra en ég lýsi en samt horfði ég, að vísu aðeins með öðru auganu þegar það fór að gerast langt í næsta atriði með Sauron. Greinilega á að gera að minnsta kosti enn eina syrpu til að kynna nazgúlana til leiks og þeir þurfa auðvitað pláss en hver nennir að bíða svona lengi eftir fúttinu? Einn hinna níu hefur sennilega þegar birst, laglegi maðurinn sem sést hér að neðan. Þá er enn beðið eftir hringnum eina en helsta von manns er að Sauron verði jafnvel enn meira áberandi í syrpu 3.

Eins hefur birst óþekktur vitki sem vonandi á ekki að vera Sarúman eða bláu vitkarnir tveir því að hvorugt gengur upp miðað við það sem fram kom um þá í verkum Tolkiens. Með það hlutverk fer hinn ágæti Ciaran Hinds (Sesar í Rome) og sýndi hvað hann gat í einu atriði í lokaþættinum en annars var fátt fyrir hann að moða úr líkt og flesta aðra leikara. Vonandi fékk hann vel borgað. Þessi þáttaröð er almennt séð afar vond hugmynd þó að hún sé heldur á uppleið. Hvers vegna ekki frekar að gera sjónvarpsþátt eftir sjálfum bókunum sem eftir Tolkien liggja? Besta efnið í Máttarbaugunum er sótt í þær enda nóg af ónýttu efni. Nú má segja að fyrri kvikmyndaaðlögun Hringadrottinssögu fyrir 20 árum hafi tekist bærilega en þó ekki þannig að ekki verði betur gert, og sannarlega var Hobbitinn ekki besta hugsanlega aðlögun þeirrar skemmtilegu og á sínum tíma frumlegu sögu sem sannarlega var ekki skrifuð eftir formúlu. Svo má líka benda á Gvend bónda á Svínafelli, eitt mest sjarmerandi verk Tolkiens. Hvers vegna ekki gera þátt úr þeirri drepfyndnu drekasögu?

Previous
Previous

Streymisveitan Emily

Next
Next

Meira um fræðibækur ársins 2024